Föstudagur 2. febrúar 2007

33. tbl. 11. árg.
Margrét Sverrisdóttir, ritari og framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir að Gunnar sé fyrst og fremst að bregðast kjósendum sínum. Þeir hafi hringt nær linnulaust til hennar síðasta sólarhringinn vegna tíðindanna. „Símalínur hafa verið glóandi hjá mér frá því ákvörðun hans varð opinber,“ segir hún. „Flestir tala um að þeim finnist ósanngjarnt að hann skuli hafa haft þingsæti af flokknum með þessum hætti.“
– Frétt Morgunblaðsins 13. maí 2005.

F yrir rúmlega hálfu öðru ári gekk einn þingmanna Frjálslynda flokksins úr honum. Hann kaus hins vegar að láta ekki af þingmennsku heldur starfar nú í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Frjálslyndir fóru þá úr fjórum þingmönnum í þrjá og töldu sinn fyrrum félaga hafa komið svívirðilega fram gagnvart kjósendum flokksins sem þarna yrðu sviknir um þann þingmannafjölda sem þeir ættu skilið í ljósi kosningaúrslita. Margréti Sverrisdóttur framkvæmdastjóra flokksins þótti þetta mjög ósanngjarnt og fór ekki dult með þá skoðun að þingmaðurinn hefði brugðist kjósendum.

Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Frjálslyndi flokkurinn einn mann kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Sá borgarfulltrúi hefur nú fengið leyfi. Við tekur varamaður hans, Margrét Sverrisdóttir. Og svo vitnað sé í frétt Morgunblaðsins í gær:

Margrét tekur í dag við sem borgarfulltrúi af Ólafi F. Magnússyni sem er í tímabundnu leyfi. Hún verður óháður fulltrúi.

Þetta er sama Margrét og taldi kjósendur Frjálslynda flokksins svikna þegar úrsögn Gunnars Örlygssonar fækkaði þingmönnum flokksins úr fjórum í þrjá. Hún sér ekkert að því að taka sjálf borgarfulltrúasæti Frjálslynda flokksins þó hún hafi yfirgefið flokkinn og borgarfulltrúum flokksins fækki þar með úr einum í engan.