N ú er búið að semja um að Alþingi verði frestað á laugardaginn og þykir það ekki síst mikið fagnaðarefni vegna þess að einhvern tíma í haust hafi verið gert ráð fyrir að þingi yrði einmitt frestað þá. Þó merkilegt sé, þá er oft eins og bæði þingmenn og margir utan þings telji mestu skipta hvenær þingið sitji og hve margir séu í þingsalnum, en minna atriði sé hvaða lög þingmenn setji. Sumir eru óðir yfir sumarleyfi þingmanna – en þegar nánar er spurt eru sömu sumir stundum líka reiðir yfir því sem þingmenn gera þegar þingið situr. Hin sígilda gagnrýni, maturinn er bæði vondur og naumt skammtaður, á mjög vel við um þá sem segja að þingmenn setji heimskuleg lög og séu sífellt í fríi.
Fyrir nokkru bar það við, að þingmenn stjórnarandstöðunnar kvörtuðu sáran yfir því að ekki eitt einasta frumvarp hefði borist frá landbúnaðarráðherra í háa Herrans tíð. Sömu þingmenn og vilja auðvitað koma Guðna Ágústssyni úr landbúnaðarráðuneytinu og helst af þingi, voru hinir verstu yfir því að ekki kæmi meira af frumvörpum frá hinum ómögulega ráðherra. Það er raunar með ólíkindum hversu mikið hleðst á dagskrá Alþingis. Hvað getur vantað af nýjum lögum?
Lög verða ekki afnumin nema með lögum. Jafnvel þeir sem telja að meira en nóg sé komið af lagasetningu, þeir myndu þó vilja lög um afturköllun ýmissa nýmæla undanfarinna ára. Það verður þess vegna ekki fullyrt fyrirfram að allar hugsanlegar lagabreytingar hljóti að vera til verri vegar. Almennt talað, má hins vegar setja fram það sjónarmið, að svo lengi sem það eru nýjasta tíska og vísindi embættismanna og lagasmiða að hugsa fyrir borgarann, að auka reglur, eftirlit, stuðning, nýsköpun og aðra afskiptasemi hins opinbera, þá ætti það að vera meginregla að taka þurrlega öllum verulegum nýmælum sem boðið er upp á við Austurvöll. Einkum á þetta auðvitað við um frumvörp stjórnarandstæðinga, því þau eru auðvitað lögð fram í fullvissu þess að þau verða aldrei samþykkt, en einnig stjórnarfrumvörp sem oftar en ekki geyma drauma embættismanna eða uppgjafarskilmála frá hagsmunahópum. Verst af öllu eru svo þau frumvörp sem alger sátt er um á þingi. Hún þýðir yfirleitt að enginn á staðnum veit eða vill lengur vita af hverju frumvarp skal samþykkt.