Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifaði skammagrein í Morgunblaðið í gær og samflokksmenn hennar ýmsir gerðu sér ferð í ræðustól Alþingis af sama tilefni. Umboðsmaður alþingis, var nefnilega að gefa álit – eða „úrskurð“ eins og sumir kalla álit hans. Að þessu sinni var hann óánægður yfir embættisfærslu fyrrverandi félagsmálaráðherra og stjórnarandstæðingar voru í hreinustu vandræðum með að finna nægilega sterk orð yfir hversu alvarlegt það væri að umboðsmaður alþingis fyndi að stjórnsýslu manna. Vefþjóðviljinn er hins vegar annarrar skoðunar og fellur ekki nauðsynlega í stafi yfir álitum þessa tiltekna embættismanns. Menn mega ekki gleyma því, að álit umboðsmanns alþingis eru aðeins álit eins manns á verkum annarra, jafnvel fjölda annarra, og það er ekkert sem segir að það sé meira vit í áliti umboðsmannsins en var í niðurstöðu ráðuneytis eða stofnunar, niðurstöðu sem kannski var verk fjölda lögfræðinga, reyndra á viðkomandi sviði.
En Samfylkingin er hins vegar þeirrar skoðunar að álit umboðsmanns séu stórisannleikur. Sá sem fær ákúrur hjá umboðsmanni verði að sæta ábyrgð. Það hefur líka alltaf verið regla Samfylkingarinnar. Sem dæmi af handahófi af því hversu hún bregst hart við álitum umboðsmanns má nefna álit frá frá 30. júní 1997. Þar háttaði svo til að sveitarfélagið Reykjavíkurborg hafði ákveðið að leggja sérstakt gjald á fyrirtæki í borginni og þessa gjaldskrá hafði umhverfisráðherra staðfest. Gjaldið var mjög umdeilt og kvartað var yfir málsmeðferðinni til umboðsmanns alþingis. Niðurstaða hans varð sú að gjaldskráin „hefði hvorki hlotið nægilegan undirbúning af hálfu Reykjavíkurborgar né umhverfisráðuneytisins áður en staðfesting hennar fór fram“. Þarna taldi umboðsmaður að stjórnvöld, bæði Reykjavíkurborg og umhverfisráðherra, hefðu ekki virt lögskipaða rannsóknarreglu. Borgarstjóri í Reykjavík var á þessum tíma hinn kröfuharði stjórnmálamaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Umhverfisráðherrann, sem umboðsmaður alþingis áleit að ekki hefði heldur virt lögskipaða rannsóknarreglu, hann er ekki síður vandaður stjórnmálamaður, – og heitir Össur Skarphéðinsson. Bæði munu vera alvarlega að íhuga afsögn vegna þessa leiðinda máls.
Ísíðustu viku kom út bókin um draumalandið. Í bókinni er fjallað um samspil manns og umhverfis og hvernig stórmál eiga til að lognast út af og sofna að lokum. Að vonum hefur bókin hlotið mikla og verskuldaða athygli enda tekur hún á málum sem flestir hljóta að velta fyrir sér og hafa jafnvel legið andvaka yfir. Höfundur Draumalands hefur sinnt þessum málum af miklum áhuga á undanförnum árum og ef Vefþjóðviljinn teldi þjóðir hafa vilja þá mætti segja að þjóðin stæði í þakkarskuld við höfund. Það er einnig óhætt að segja að með útgáfu bókarinnar sé horft til framtíðar og hagsmunir komandi kynslóða hafðir að leiðarljósi. Að sönnu er bókin um draumalandið kærkomin sjálfshjálparbók handa fólki í vanda, skelkuðu og jafnvel hræddu fólki sem leggur ekki í að leita lausna.
Í einu af mörgum viðtölum um bókina í fjölmiðlum var höfundurinn spurður hvernig ætti að lesa bókina. Höfundurinn, sem kunnur er fyrir hnyttin tilsvör, svaraði að bragði að bókina hefði hann skrifað frá byrjun til enda og best væri að lesa hana þannig.
Það er engu logið í kynningu á bókinni að hún veitir ómetanlega hjálp. Þannig vitnar fréttakona á Ríkissjónvarpinu um ágæti hennar með þeim orðum að bókin sé „ómetanlegt leiðarljós um draumaland barnanna okkar.“ Hún bætir svo við að bókin svari „öllum þeim spurningum sem við höfum ekki hugrekki til að bera upp en þráum svörin við. Þetta er bókin sem ég hef beðið eftir.“
Kannski mætti segja að fátt lýsi bókinni og þeirri góðu hugsun sem að baki býr betur en eitt ljóðanna sem hún hefur að geyma.
Dvel ég í Draumahöll og dagana lofa.
Litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa.
Sígur ró um djúpan dal
dýr til hvílu ganga.
Einnig sofna skolli skal
með skottið undir vanga.
Og það er ekki tilviljun að bókin er kennd við draumalandið. Það er draumur flestra foreldra að börnin komist í draumalandið á hverju kvöldi án mikilla harmkvæla og eigi þar góða vist yfir nóttina. Einn kafli bókarinnar heitir raunar Einn átta mánaða sem vekur alla í blokkinni svo það eru vafalaust fleiri en bara foreldrar sem eiga sér þann draum að börnin komist klakklaust yfir í draumalandið.