Morgunblaðið hefur áhyggjur af því að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra auglýsi á eigin kostnað en gagnrýnir ekki auglýsingaherferð borgarstjóra á kostnað skattgreiðenda. |
Morgunblaðið hélt í leiðara í gær áfram baslinu með þá kröfu sína um að sett verði bönd á þá sem vilja kosta nokkru til við pólitísk framboð. Blaðið hefur þó loks áttað sig á því að með því að banna frambjóðendum að þiggja styrki er verið að veita ríkum frambjóðendum ákveðið einkaleyfi á að kaupa auglýsingar til að kynna sig.
En það eru fleiri agnúar á því að banna mönnum að styrkja frambjóðendur eða setja aðrar hömlur á kostnað við framboð. Vefþjóðviljinn nefndi nokkra þeirra í síðustu viku og hefur gert áður. Gary Becker hagfræðiprófessor og Richard Posner dómari, sem einnig starfar við Chicago háskóla, skrifuðu um þetta mál á vef sínum í fyrradag en margar tilraunir hafa verið gerðar til að setja lög um þessi efni í Bandaríkjunum. Engu að síður heldur framboðskostnaður áfram að aukast. Becker nefnir að þrátt fyrir að sett hafi verið ný lög árið 2002, kennd við McCain og Feingold, sem ætlað var að stemma stigu við þessum kostnaði hafi kostnaður við forseta- og þingkosningar farið úr 3 milljörðum dala árið 2000 í 4 milljarða árið 2004. Posner bendir á að með því að takmarka auglýsingar, hvort sem er með því að banna þær beint eða setja hömlur á styrki til frambjóðenda, sé verið að auka áhrif fjölmiðla í kosningum. Þegar frambjóðendum sé meinað að kynna sig þurfi þeir og kjósendur að treysta að mestu leyti á fjölmiðla. Það sé því engin furða að fjölmiðlar styðji margir boð og bönn af þessu tagi.
Eins og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi sýndi þarf ekki endilegan mikinn fjáraustur til að ná árangri. Árangur Sifjar Sigfúsdóttur er til marks um það en hún náði bindandi kosningu í vænlegt sæti án þess að reka kosningaskrifstofu, gefa út bækling, opna heimasíðu eða auglýsa að ráði. Margir frambjóðendur sem kostuðu mun meiru til lentu fyrir neðan Sif. Becker nefnir þrjá frambjóðendur í Bandaríkjunum sem kostuðu miklu til við framboð en uppskáru ekki eftir því; Forbes, Kerry og Huffington. Hann segir að auðvitað séu til dæmi um að ríkir menn nái kjöri en hin dæmin séu bara miklu fleiri.
Becker bendir jafnframt á að starfandi stjórnmálamenn hafi mikið forskot á keppinauta sína vegna þeirrar umfjöllunar sem þeir njóta vegna starfa sinna og einnig vegna kjördæmapots sem margir þeirra stundi. Er ekki besta dæmið um þetta hvernig Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri misnotar skattfé borgaranna til að auglýsa fundi sem hún heldur í hverfum borgarinnar en Stefán Jón Hafstein keppinautur hennar um efsta sæti Samfylkingarinnar þarf að auglýsa á eigin kostnað. Um þessa hlið málsins segir Becker:
Lög sem í alvöru takmörkuðu framlög í kosningasjóði mundu gera nýjum frambjóðendum erfitt fyrir því þeir þurfa að kynna sig fyrir kjósendum svo þeir eigi möguleika gegn sitjandi valdhöfum. Af ýmsum ástæðum hefur forskot valdhafanna aukist undanfarna áratugi. Þeir sem krefjast takmarkana á framlög í kosningasjóði eiga ekki mesta sök þar á en þeir stuðla engu að síður að því. |
E
Það er ekki sama hvort er, franska hverfið eða Frakkland sjálft. |
ftir að fellibylurinn Katrín gekk yfir New Orleans og borgin fór að stórum hluta á kaf í vatn fóru alls kyns vitleysissögur af stað um ástandið í borginni. Það vantaði ekki magnaða húsganga – eða öllu heldur kaffihúsganga – af morðum, nauðgunum, skotbardögum, rupli og ránum. Þá biðu kjaftaskar fjölmiðlanna ekki boðana. Sögðu þeir ekki að „samfélagsgerðin hefði hrunið“ og lögmál frumskógarins tekið við? Var ekki tönnlast á því að það væri dapurlegt að horfa upp á ástandið í þessu ríkasta landi veraldar sem væri á sömu stundu með þúsundir hermanna í fjarlægum löndum? Nýttu menn ekki örugglega tækifærið til að segja að svona þjóðfélag misskiptingar og villimennsku mundu þeir ekki vilja sjá hér á landi?
Það ætti auðvitað einhver að rifja þessi ummæli upp og birta þau sem vitnisburð um hvað hatur ýmissa manna á Bandaríkjunum er óbilandi. Það er ekki síður áhugavert að bíða þessar vikurnar eftir að þessir sömu menn gefi sig fram og fjalli um ástandið á götum Parísar. Hvað þarf óöldin að standa í marga daga eða vikur í viðbót til að Frakkland fái svipaða einkunn og Bandaríkin fengu eftir flóðin og fellibylinn? Hvað þarf að kveikja í mörg þúsund bílum í viðbót eða særa marga lögreglumenn að auki í París til að það verði pistlahöfundum og speglurum landsins hneykslunarhella?
Ringulreiðin í Louisiana í haust var eftir eitt versta óveður og verstu flóð sem gengið hafa yfir ríkið. Við það fékk enginn ráðið þótt margt hefði betur mátt fara eins og nær alltaf við slíkar aðstæður. Hvað var það annað en villimennska hvernig hatursmenn Bandaríkjanna notuðu þessar hörmungar til að flytja skammarræður sínar um landið?