Þ
Skógur getur verið til mikillar prýði, en það réttlætir ekki að skógrækt sé niðurgreidd. Sérstaklega ekki ef hún skaðar fuglalíf. |
að loðir allnokkuð við umræðu um umhverfismál – eins og mörg önnur mál – að þegar menn telja sig hafa komið auga á vandamál sem steðji að þá gera þeir kröfu um að ríkið grípi inn í og virðast ætla að það sé best til þess fallið að bjarga málunum. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkinu hafa verið afar mislagðar hendur í þessu efni og þarf ekki í því sambandi að nefna fyrrum kommúnistaríki í Austur-Evrópu, þó að þaðan séu vissulega skýr dæmi um slæmar afleiðingar afskipta ríkisins fyrir umhverfið. Dæmin um þetta eru einnig til hér á landi, en ríkið hefur um áratugaskeið niðurgreitt ýmsar aðgerðir og rekstur sem hafa haft þær afleiðingar breyta að óþörfu ósnortinni náttúru, það er að segja því lífríki sem maðurinn hafði ekki haft áhrif á áður.
Þekktasta dæmið eru líklega greiðslur til bænda fyrir að ræsa fram mýrar, en afleiðingar þess hafa verið þær að minnka umtalsvert það svæði sem vaðfuglar hafa haft til búsetu og stofnar þeirra hafa liðið fyrir það. Nú er út af fyrir sig almennt talað réttlætanlegt að menn taki land til notkunar fyrir sig og þá starfsemi sem þeim er nauðsynleg, en þegar ríkið niðurgreiðir landbreytingarnar verða afleiðingarnar vitaskuld þær að of miklu landi er breytt og þegar kemur að mýrunum er ljóst að of mikið var ræst fram. Niðurstaðan hefur orðið sú að á síðustu árum hefur verið fyllt upp í skurðina á ný – og vitaskuld aftur á kostnað skattgreiðenda.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær var svo nefnt annað dæmi um niðurgreiddar framkvæmdir hins opinbera sem kunna að skaða fuglalíf og að þessu sinni eru það mófuglar sem taldir eru verða fyrir barðinu á niðurgreiðslunum, að hluta til þeir sömu og þurftu að sætta sig við skert búsvæði vegna framræslu mýra. Fréttin byggðist á grein sem sagt var að ætti að birtast í marshefti Biolocical Conservation og niðurstaða rannsóknarinnar sem greinin byggist á mun vera sú að mófuglum kunni að fækka vegna aukinnar skógræktar hér á landi. Fuglunum líkar víst heldur verr við skóga en móa og opinberlega styrkt skógrækt, til að mynda verkefnið „Bændur græða landið“, er þá til þess fallin að fækka mófugli.
Nú er lítið við því að segja ef bændur vilja rækta skóg og gera það á eigin landi á eigin kostnað, en þegar skógræktin er á kostnað annarra að þeim forspurðum er hún vafasöm í meira lagi. Þegar við bætist að niðurgreidda skógræktin skaðar fuglalíf landsins kárnar gamanið enn frekar.
Svokallaðir umhverfisverndarsinnar mættu hafa það í huga næst þegar þeir krefjast aðgerða af hálfu ríkisins að mikil hætta er á því að ríkið sé fremur skaðvaldur en bjargvættur í umhverfismálum. Sú leið sem hefur gagnast best í umhverfismálum og er líklegust til að leiða til þess að vel sé hugsað um náttúruna er að tryggja eignarrétt á náttúrunni. Eigendur lands hafa almennt ekki áhuga á að spilla landinu sínu, en þeir láta stundum til leiðast þegar ríkið býðst til að greiða þeim háar fjárhæðir fyrir.