Miðvikudagur 9. febrúar 2005

40. tbl. 9. árg.

L ægri skattar voru aðalefni viðskiptaþings Verslunarráðs Íslands í gær, en þar lagði ráðið fram tillögur um lækkun og samræmingu skatthlutfalls í 15%. Tekjuskattar fyrirtækja hafa verið lækkaðir myndarlega, úr 51% fyrir hálfum öðrum áratug í 18% nú, en Verslunarráðið vill lækka skattinn niður í 15%. Tekjuskattshlutfall einstaklinga hefur verið lækkað nokkuð á undanförum árum og núverandi ríkisstjórn hefur fengið lögfest að skatthlutfallið muni lækka töluvert á næstu árum, bæði með lækkun almenna skattþrepsins og niðurfellingu sérstaka tekjuskattsins eða hátekjuskattsins eins og hærra þrepið er kallað. Eftir að breytingin er að fullu komin fram verður tekjuskattur ríkisins 21,75% og Verslunarráðinu þykir að lengra megi ganga. Engum þarf að koma á óvart að Vefþjóðviljinn er sömu skoðunar og telur lágan flatan skatt æskilegan. Þá telur Verslunarráðið að virðisaukaskattinn, sem nú er 24,5% á flesta vöruflokka en 14% á nokkra valda vöruflokka, ætti að lækka í 15%. Undir það má taka að virðisaukaskatturinn mætti lækka, því að hann er allt of hár.

Sumir hafa áhyggjur af því að lækkun skatta dragi úr tekjum ríkisins og telja að það muni annaðhvort leiða til hallareksturs eða óæskilegs niðurskurðar hjá ríkinu. Í Morgunblaðinu í gær er haft eftir formanni Verslunarráðsins að lækkun virðisaukaskattsins myndi „kosta ríkissjóð“ á milli 25 og 30 milljarða króna, en það sé álíka há upphæð og hækkun ríkisútgjalda síðast liðin þrjú ár. Það getur varla talist sérstök goðgá að skrúfa ríkisútgjöld niður í það sem þau voru fyrir örfáum árum, þó að það geti vissulega reynst pólitískt erfitt eins og dæmin sanna. Kröfugerðahóparnir eru alls staðar og ríkisútgjaldasöngurinn er sífellt sunginn. Svo einkennilegt sem það er þá er það jafnvel látið heita niðurskurður þegar dregið er úr aukningu ríkisútgjalda, þannig að það getur verið erfitt að eiga við útgjaldaaukninguna. Og til að lækka útgjöld niður í það sem þau voru fyrir fáeinum árum virðist að óbreyttu vonlítið.

R-listinn hefur gengið á undan með slæmu fordæmi í hækkun skatta og opinberra útgjalda. Kominn er tími til að sveitarfélögin sýni ábyrgð og láti af linnulausu sífri um takmarkaða tekjustofna.

En það sem helst getur orðið til að hægt sé að stöðva útgjaldaaukningu ríkisins er einmitt að lækka skatta duglega til að ríkið hafi minna umleikis. Kröfur um útgjöld aukast í réttu hlutfalli við auknar tekjur og eina leiðin til að skapa nauðsynlegan þrýsting á þingmenn að minnka útgjöld er að lækka skatta þannig að skatttekjur dragist saman. Ef skatttekjur hækka um nokkra milljarða þá fara þeir yfirleitt ekki nema að litlu leyti í sparnað, þ.e. niðurgreiðslu skulda. Hvatinn er nær allur til þess að eyða þessu fé í gæluverkefni sem þingmenn og þrýstihópar hafa beitt sér fyrir. Af þessum sökum er eina raunhæfa leiðin til að draga saman útgjöldin sú að draga fyrst saman tekjurnar með því að lækka skatta svo um munar. Núverandi ríkisstjórn hefur vissulega sýnt ágæta viðleitni í þessa átt, því að með skattalækkunum hennar mun hægja á útgjaldaaukningunni. Það er hins vegar ekki nóg og næsta skref ætti að vera að lækka skatta það mikið að hægt sé að snúa útgjaldaþróuninni við. Það þarf að draga úr útgjöldum en ekki aðeins að tefja aukningu þeirra.

Áður en skilið er við þessa umræðu er nauðsynlegt að benda á að hér hefur aðeins verið rætt um útgjöld ríkisins, en ekki útgjöld sveitarfélaganna. Þó er það svo að útgjöld hinna síðarnefndu eru enn meira áhyggjuefni en útgjöld ríkisins. Sveitarfélögin hafa á síðustu árum hækkað skatthlutföll á sama tíma og ríkið hefur lækkað þau og þau hafa aukið útgjöld enn meira en ríkið. Í þessu hefur stærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg R-listans, gengið á undan með slæmu fordæmi. Eftir skattahækkanir sveitarfélaganna og skattalækkanir ríkisins er nú svo komið að meirihluti staðgreiðslu skatta einstaklinga, þess sem í daglegu tali er kallaður tekjuskattur og skiptist í útsvar sveitarfélaganna og tekjuskatt ríkisins, rennur til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin bera því ekki síður ábyrgð en ríkið þegar skattar eru annars vegar, en þrátt fyrir það er sjónum mun oftar beint að ríkinu. Það er löngu tímabært að sveitarfélögin sýni örlitla ábyrgð í skattheimtu sinni og útgjöldum og láti af linnulausu sífri um takmarkaða tekjustofna.

A ð allt öðru. Þeir lesendur sem ekki hafa þegar ráðstafað sér til brýnna verkefna í kvöld gætu gert margt verra en að bregða sér í Háskólabíó að berja myndina Fahrenhype 9/11 augum. Myndin er ádeila á ádeilumynd Michaels Moores, Fahrenheit 9/11, sem gerð var í fyrra til að reyna að koma í veg fyrir endurkjör Bush forseta Bandaríkjanna. Fróðlegt er fyrir menn að kynna sér hversu mjög „heimildarmyndir“ geta vikið frá sannleikanum. Samband ungra sjálfstæðismanna stendur fyrir bíósýningunni og segir á vef sínum að hún fari fram klukkan 19:30. Þar er einnig að finna fullyrðinguna „aðgangur er ókeypis“, en hún mun þó ekki vera til marks um viðleitni sambandsins til að afsanna hina frægu kenningu Miltons Friedmans um að hádegisverðurinn sé aldrei ókeypis.