Þriðjudagur 15. febrúar 2005

46. tbl. 9. árg.

Ámorgun tekur gildi bókun í alþjóðlegum samningi á vegum Sameinuðu þjóðanna um að fresta árinu 2100 til ársins 2106. Það er vel við hæfi að seinkunin nemi um sex árum því það er sá tími sem leið frá því bókunin var gerð og ljóst var að nægilega mörg ríki staðfestu hana til að hún hefði eitthvert gildi.

En þótt nægilega mörg þeirra ríkja sem upphaflega stóðu að bókuninni, sem kennd er við Kyoto, hafi fullgilt hana til að hún yrði að bindandi ákvæði er ekki þar með sagt að þessi ríki muni fara eftir því sem bókunin kveður á um.

Það er raunar fátt sem bendir til að það verði mikið fleiri vestræn ríki en Ísland og kannski Bretland sem geti staðið við það sem fulltrúar þessara ríkja hafa ritað undir. Bókunin gerir ráð fyrir að útblástur gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008 til 2012 verði ekki meiri en hann var árið 1990.

Fjölmennustu ríki heims og stærstu hagkerfin standa ekki að þessum samningi. Það stóð aldrei til að ríki eins og Kína og Indland yrðu með og þótt Al Gore hefði Bandaríkin með í samningaumleitunum þá lá ljóst fyrir að málið nyti einskis stuðnings í öldungadeild Bandaríkjaþings og það var skýr stefna George W. Bush í forsetakosningunum 2000 að hafna bókuninni.

Spár um hlýnun vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda af manna völdum byggjast á gríðarflóknum tölvulíkönum. Fari svo ólíklega að ríkin sem staðfestu bókunina fari í einu og öllu eftir efni hennar mun það hafa þau áhrif, samkvæmt þessum sömu tölvulíkönum, að hlýnunin frestast um nokkur ár. Hitinn sem von er á 2100 kemur þá ekki fyrr en 2106. Kannski verður 0,1°C kaldara en ella árið 2050.

Þetta er allt að því gefnu að kenningin um hlýnun vegna útblásturs á vegum mannsins eigi við rök að styðjast. Gangi hlýnunin eftir eiga menn svo eftir að sjá hvort hún verður til góðs eða ills.

Standi menn við Kyoto bókunina verður það dýrt. Mjög dýrt. Stór hluti kostnaðarins verður ekki mælanlegur fremur en kostnaður af öðrum opinberum afskiptum.Ýmis vandamál steðja nú þegar að jarðarbúum sem er brýnt að leysa á borð við óheilsusamlegt drykkjarvatn, litlar sóttvarnir, lélega heilsugæslu og menntunarskort. Það er nöturlegt að gerður skuli samningur á vegum alþjóðlegrar stofnunar, Sameinuðu þjóðanna, sem jafn ólíklegur er til að skila árangri og Kyoto bókunin á meðan þessi mál eru óleyst víða um heim.