Mánudagur 7. mars 2005

66. tbl. 9. árg.
VR gerir allt fremur en að lækka nauðungargjöldin.

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur hefur í áratugi neytt þúsundir og nú tugþúsundir manna til að greiða félaginu ýmis gjöld, þar með talið félagsgjald og orlofssjóðsgjald. Félagið hefur alla tíð verið í mikilli útrás í starfsemi sinni, gefur út myndarlegt tímarit, byggir og leigir út sumarbústaði, rekur tjaldvagnaleigu, veitir lögfræðiþjónustu, stundar tryggingastarfsemi, leigir út íbúðir í sólarlöndum, rekur umsvifamikið fræðslustarf, er verktaki fyrir atvinnuleysistryggingasjóð við útgreiðslu atvinnuleysisbóta og leggur eins og önnur stéttarfélög pólitískum álitamálum í þjóðfélaginu ýmist lið eða beitir sér af afli gegn þeim. Að því ógleymdu að félagið skiptir sér af þeim samningum sem 22 þúsund launþegar gera við vinnuveitendur sína. Ef marka má vef félagsins eru starfsmenn á glæsilegum skrifstofum félagsins nú orðnir 45.

Þessir 22 þúsund félagsmenn greiða yfir 1.000 milljónir króna til VR á hverju ári í félags-, sjúkra- og orlofssjóðsgjöld. Það eru að meðaltali um 45 þúsund krónur á hvern félagsmann á ári. Hin síðari ár hafa forsvarsmenn félagsins vart haft ímyndunarafl til að koma þessum gríðarlegu tekjum félagsins í not. Það flæðir út úr sjóðum félagsins. Til að losa sig við eitthvað af þessu fé tóku forsvarsmenn félagsins til dæmis upp á því fyrir nokkrum árum að senda félagsmönnum svonefndar „orlofsávísanir“, eins og vikið var að hér. Það var gert í þeim tilgangi að grynnka aðeins á því fé sem hlóðst upp í orlofssjóði félagsins. Með orlofsávísunum þessum má greiða fyrir þjónustu hjá nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Nei, þetta er ekki skáldskapur. VR tekur venjulegar íslenskar krónur, sem teknar eru góðar og gildar hvar sem er á Íslandi og má jafnvel skipta fyrir erlenda gjaldmiðla, af launum félagsmanna sinna og sendir þeim til baka „orlofsávísun“ sem gildir bara á örfáum stöðum. Í ársskýrslu VR fyrir árið 2003 kemur fram að félagsmenn hafi fengið senda orlofsávísun upp á 5.000 krónur. Þriðjungur félagsmanna nýtti ávísunina.

Í frétt Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag segir svo frá því að VR hafi í hyggju að láta framvegis hluta félags-, sjúkra- og orlofssjóðsiðgjalda félagsmanna sinna renna á „sérgreindan sparnað“. Félagið hefur með öðrum orðum gefist upp á að eyða þessum gjöldum sem það tekur af félagsmönnum sínum nauðugum. Í stað þess að lækka einfaldlega gjöldin ætlar félagið að grípa til þess ráðs að reka sparisjóðsbækur í nafni allra félagsmanna sinna. Í frétt Morgunblaðsins segir að sjóðinn  geti hver og einn nýtt til ákveðinna verkefna að eigin vali.

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur ætlar framvegis að taka gjöld af félagsmönnum sínum sem hver og einn má svo ráðstafa að eigin vild! Hvenær má nota hugtakið „óþarfur milliliður“ ef ekki um þessi ósköp? Þetta þykir Morgunblaðinu hins vegar bara eðlilegasti hlutur í heimi og birtir frétt um málið eins og þarna sé ágætt framtak. „Félagsmenn fá tugi þúsunda inn á reikning“, segir í fyrirsögn fréttarinnar svona eins og peningarnir komi frá einhverjum allt öðrum en félagsmönnunum sjálfum.

Í stað þess að vera eins og hver önnur ljósritunarvél fyrir fréttatilkynningar Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hefði Morgunblaðið kannski mátt spyrja eftirtalinna spurninga: Hvers vegna telja forsvarsmenn VR sig betur til þess fallna en almenna félagsmenn sína til að ávaxta þetta fé? Var ekki búið að leggja af skyldusparnað á Íslandi? Eru stéttarfélögin ekki óþarfur milliliður eða félagsgjöldin alltof há?