Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði sagði í fjölmiðlum: Höfuðatriðið í þessu máli er sanngjörn tekjuskipting sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Það er hárrétt hjá Lúðvík. Í því liggur lykill að frambúðarlausn. |
– Össur Skarphéðinsson á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun. |
Frumvarp þetta felur í sér þá einföldu breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að rýmka heimildir þeirra til álagningar útsvars um eitt prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. |
– Frumvarp vinstrigrænna til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. |
Eru sumir stjórnmálamenn alveg hættir að tala um fólk þegar skattar eru annars vegar? Skipta skattgreiðendur ekki lengur máli í umræðum um skattamál? Eru einstaklingarnir, sem á endanum greiða alla skatta, ekki mannlegir lengur heldur bara „tekjustofn“? Svona eins og hver annar nytjastofn eða kálgarður? Skattgreiðendur eru ekki nefndir lengur þegar vissir stjórnmálamenn leggja til skattahækkanir. Þeir tala bara um að nýta tekjustofnana betur.
Þetta er sérstaklega áberandi þegar rætt er um útsvar sveitarfélaganna. Útsvarið er því miður ósýnilegt á launaseðlum skattgreiðenda. Fæstir gera grein fyrir því að þegar upp er staðið hafa ríki og sveitarfélög hafa álíka miklar tekjur af tekjuskatti einstaklinga. Hlutur sveitarfélaganna hefur farið vaxandi undanfarin ár á sama tíma og ríkið hefur minnkað sinn hlut. Það væri afar hollt fyrir bæði skattgreiðendur og ekki síður sveitarstjórnarmenn að þessi skattur væri sýnilegri en hann er í dag og menn sjái það svart á hvítu um hver mánaðamót hve sveitarfélögin eru orðin stórtæk í skattheimtunni.
Þingmenn vinstrigrænna hafa lagt fram stutt en vont lagafrumvarp um að hækka tekjuskatt einstaklinga um 1% með því að sveitarfélögin hækki útsvarið. Í greinargerð með frumvarpinu er því haldið fram að frumvarpið feli ekki í sér skattahækkun því ríkið ætli að lækka sinn hlut í tekjuskattsstofninum um 1%. Þannig má líklega gera ráð fyrir að vinstrigrænir teldu frumvarpið sitt um hækkun útsvars vera frumvarp um skattalækkun upp á 1% ef ríkið ætlaði að lækka sinn hlut í tekjuskattinum um 2%. Vinstri grænir, eins og Össur Skarphéðinsson, líta greinilega á tekjur manna sem eign hins opinbera og aðalatriðið sé hvernig ríki og sveitarfélög skipti þeim á milli sín á „sanngjarnan“ hátt. Skattgreiðendur mega svo náðarsamlegast hirða það sem út af stendur.