Fimmtudagur 4. nóvember 2004

309. tbl. 8. árg.

Áalþingi hefur nú verið lögð fram tillaga til þingsályktunar; ein af þessum brýnu. Þingmennirnir Jónína Bjartmarz, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa lagt til að alþingi feli félagsmálaráðherra „að skipa nefnd er kanni viðhorf til kvenna í stjórnmálum, til áhrifa kvenna og valda og til gildis og þýðingar stjórnmálaþátttöku kvenna fyrir samfélagið. Nefndin kanni sérstaklega afstöðu almennra kjósenda, karla og kvenna, en leiti jafnframt eftir sjónarmiðum kvenna sem tekið hafa þátt í stjórnmálastarfi, svo og viðhorfum fjölmiðla, þ.e. blaðamanna og þáttastjórnenda af báðum kynjum.“ Af þessu tilefni vill Vefþjóðviljinn stinga upp á því við aðra þingmenn að sameinast um sérstaka þingsályktunartillögu, og heitir blaðið því þá af sinni hálfu að mæla með samþykkt hennar daglega í eina viku. Tillagan myndi hljóma svo:

Alþingi ályktar að vekja athygli hv. þm. Jónínu Bjartmarz, Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, Arnbjargar Sveinsdóttur, Guðrúnar Ögmundsdóttur, Kolbrúnar Halldórsdóttur, Einars K. Guðfinnssonar, Guðmundar Árna Stefánssonar, Gunnars Örlygssonar, Magnúsar Stefánssonar, Sivjar Friðleifsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar á því að í landinu starfa fyrirtæki er einkum og sérílagi hafa þann starfa með höndum að afla upplýsinga um viðhorf almennra borgara til einstakra mála. Þessi fyrirtæki eru líkleg til að taka að sér að kanna viðhorf til kvenna í stjórnmálum, til áhrifa kvenna og valda og til gildis og þýðingar stjórnmálaþátttöku kvenna. Kostnaður við kaup könnunarinnar ætti að verða hóflegur, ekki síst ef hann skiptist milli ellefu kaupenda.

Að þessari ályktun gerðri, færi svo vel á því að þingsályktunartillögu þingmannanna ellefu yrði hafnað og skattgreiðendum hlíft við frekara þrugli.

Opinber nefnd, „jafnréttisnefnd Reykjavíkur“ kom saman á dögunum og sendi frá sér ályktun vegna nýlegs héraðsdóms þar sem ákærður maður var sakfelldur fyrir hegningarlagabrot en ákvörðun refsingar hans frestað. Nefndin lýsir andstöðu sinni við niðurstöðu dómsins og krefst þess að honum verði breytt í hæstarétti, þannig að hinum ákærða manni verði þegar ákveðin refsing. Ekkert kemur fram í ályktuninni um það hvað nefndarmenn hafa gert til að kynna sér málavexti, svo sem sönnunargögn eða vitnaleiðslur, enda má það liggja á milli hluta. En hvar eru nú allir þeir sem aldrei vilja leyfa mönnum að gagnrýna dómsniðurstöðu? Þeir sem æpa að það „grafi undan dómstólunum“. Hér eru ekki einstaklingar að tala heldur opinber nefnd – sem ekki hefur enn verið falið ákæruvald í landinu svo menn viti – og það er verið að krefjast þess að einstaklingur verði dæmdur til refsingar. Ætli ýmsir segðu nú ekki eitthvað ef alþingi samþykkti ályktun þess efnis að það krefðist þess að dómari dæmdi tiltekinn mann til tiltekinnar refsingar?

Vel má svo vera að maðurinn verðskuldi þunga refsingu og það þegar í stað, en það er annað mál. Hér er athyglisvert hvað öllum finnst sjálfsagt að opinber nefnd krefjist þess að dómstóll breyti niðurstöðu í máli tiltekins einstaklings.