Þ
Ingibjörg upplýsti félaga sína í R-listanum ekki um þátt Þórólfs í meintu ólöglegu samráði olíufélaganna við ráðningu hans sem borgarstjóra. Er það dæmi um „samræðustjórnmálin“ sem hún boðar? |
egar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir valdi Þórólf Árnason sem eftirmann sinn í stól borgarstjóra í Reykjavík í ársbyrjun 2003 mun hann hafa upplýst hana um hlut sinn í meintu ólöglegu samráði olíufélaganna. Ingibjörg Sólrún hefur sagt að þá hafi hún spurt Þórólf hvort hann „gæti varið sig“ og hann talið svo vera. Ingibjörg Sólrún upplýsti félaga sína í borgarstjórnarflokki R-listans hins vegar ekki um hlut Þórólfs í þessu máli og þeir gátu því ekki haft það til hliðsjónar þegar hann var ráðinn til starfa.
Nú velta Ingibjörg Sólrún og félagar hennar í borgarstjórnarflokki R-listans því hins vegar fyrir sér hvort Þórólfi sé sætt áfram sem borgarstjóri vegna aðildar hans að málinu. Málið sem Ingibjörg taldi ekki ástæðu til að upplýsa félaga sína í R-listanum um er nú orðið að ástæðu til að ræða brottrekstur borgarstjórans.
Ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar á þeirri stöðu sem nú er komin upp innan R-listans er því mikil.
Það liggur jafnframt fyrir að félagar hennar úr Framsóknarflokki og VG töldu hana hafa gengið á bak orða sinna þegar hún ákvað að fara í þingframboð fyrir Samfylkinguna á síðasta ári. Ingibjörg Sólrún ætlaði að nota styrk sinn sem borgarstjóri í skjóli Framsóknarflokks og VG til að berja á þessum sömu flokkum í þingkosningum sem „forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar“. Ingibjörg Sólrún taldi það sjálf ekki vera vandamál en á endanum varð Þórólfur „lausnin“ á þeim trúnaðarbresti.
Ef Þórólfur Árnason hrökklast nú úr embætti borgarstjóra hefur trúnaðarskortur Ingibjargar Sólrúnar við aðra borgarfulltrúa R-listans leitt til tvennra borgarstjóraskipta á jafnmörgum árum.
Hvaða lærdóm ætli Framsóknarflokkur og VG dragi af þessu öllu saman? Hvaða lærdóm ætli Framsóknarmenn og Vinstrigrænir muni draga af því að hafa búið til pólitíska stjörnu og „forsætisráðherraefni“ fyrir Samfylkinguna með því að gera Ingibjörgu að borgarstjóra? Ætli þeir hefjist ekki nú þegar handa við að búa til nýja stjörnu fyrir Samfylkinguna?
Annars er erfitt að botna í því hvað R-listinn er að fara með yfirlýsingunni sem borgarfulltrúar hans og borgarstjóri sendu frá sér í gær að loknum fjögurra stunda fundi:
Borgarstjórnarflokkur Reykjavíkurlistans telur að umræða síðustu daga um skýrslu Samkeppnisstofnunar hafi gert stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra erfiða. Borgarstjórnarflokkurinn vill gefa Þórólfi tóm til að kynna sjónarmið sín fyrir borgarbúum. Borgarfulltrúar og borgarstjóri eru sammála um að leiða málið sameiginlega til lykta. |
Er það „umræðan“ í þjóðfélaginu sem er erfið en ekki þáttur Þórólfs Árnasonar í málinu? Ef engin umræða væri um þessa skýrslu Samkeppnisstofnunar væri þá bara allt í himnalagi? Ef til vill er þetta bara einkennilega orðuð yfirlýsing hjá borgarfulltrúunum. Ef það er hins vegar tilfellið að þeim þyki bara umræðan óþægileg en efnisatriði málsins engu skipta þá er það satt sem sagt hefur verið að Þórólfur er góður sölumaður. Hann hefur þá sannfært borgarfulltrúana á fundinum í gær um að ávirðingar Samkeppnisstofnunar í hans garð séu ekki á rökum reistar. Eins og Þórólfur lýsti raunar ágætlega í viðtalsþáttum á bæði Stöð 2 og Ríkissjónvarpinu í gær eru greinilega ýmsar rangfærslur í skýrslu Samkeppnisstofnunar en stofnunin er fræg að endemum fyrir að mistúlka orð manna, allt frá Adam Smith fram á okkar daga. Þórólfur komst að vísu lítið að á Stöð 2 til að ræða efnisatriði ávirðinganna því þáttarstjórnendur þurftu að spyrja hann svo oft um hvort hann ætlaði ekki alveg örugglega að segja af sér sem borgarstjóri. En í þeim fáu efnisatriðum sem nefnd voru hafði Þórólfur inn á milli sitt hvað til síns máls. Það kemur vissulega á óvart miðað við umræðuna í þjóðfélaginu síðustu daga um „stærsta þjófnað“ Íslandssögunnar.