Föstudagur 13. ágúst 2004

226. tbl. 8. árg.

Kunna forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands alls ekki að skammast sín? Launþegar eru ekki spurðir álits á því hvort þeir vilji vera í aðildarfélögum sambandsins og greiða þeim félagsgjöld. Því mætti ætla að forsvarsmenn samtakanna héldu kannski þátttöku í flokkspólitísku starfi í lágmarki svona rétt að meðan þeir eru óumbeðnir á margföldum lágmarkslaunum félagsmanna við að verja hagmuni þeirra.

Í síðustu viku mátti heyra það í fréttum, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að forseti Alþýðusambands Íslands tæki þátt í „leiðtogafundi norrænna jafnaðarmanna“. Fundurinn var haldinn á vegum SAMAK, samtaka norrænu jafnaðarmannaflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar. Samfylkingin og Alþýðusamband Íslands eiga aðild að þessum samtökum. Á fundinn voru því mættir forkólfar norrænna jafnaðarmannaflokka og forseti ASÍ.

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem forsvarsmenn sambandsins eru á vafasömum samkomum. Fyrir rúmum 23 árum sendi sambandið til dæmis fulltrúa sinn til að heiðra stjórn Sovétríkjanna með nærveru sinni á 1. maí. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma bar fulltrúi ASÍ gestgjöfum sínum engin skilaboð. Slíkt væri ekki venjan!

Nú má kannski spyrja hvort samtök sem höfðu ekkert að segja við ástandinu í Sovétríkjunum árið 1981 hafi eitthvað fram að færa á leiðtogafundi með forræðishyggjuflokkum Skandinavíu og Íslands. Í það minnsta væri það forvitnilegt fyrir þá sem greiða ASÍ félagsgjöld að heyra hvort forsvarsmenn sambandsins eru bara til skrauts á leiðtogafundi jafnaðarmanna eins og á Rauða torginu forðum.