Aðgerðir þeirra ömurlegu manna sem ætla að svíkja Ísland með jáyrði sínu í dag eða á morgun bindur enda á þann vorhug íslensku þjóðarinnar og þann bjartsýnisfulla vilja til bræðralags og samvinnu innanlands sem honum fylgdi á þessu stutta tímabili frá 17. júní 1944. Eftir stendur íslenska þjóðin einsog ker sem ómar ekki leingur við áslátt, af því það stendur ekki leingur einsamalt, heldur hefur ókunn hönd verið lögð á barm þess. Hin frjóa gleði yfir því að vera sjálfstætt fólk hefur verið tekin frá okkur af nokkrum landráðamönnum, einsog á 13. öld. Dimmir dagar eru frammundan, vonbrigði og sorg mun þýngja hreyfingar okkar um sinn. Aðeins fáeinir innlendir agentar útlends ríkis munu hlakka, og þó ekki heils hugar; en örðugleikar, óró og stríðlyndi einkenna þetta únga ríki sem nú er reynt að myrða í reifum. |
– Halldór Kiljan Laxness í blaðagrein um herverndarsamninginn við Bandaríkin, hér tekið úr Reisubókarkorni, 3. útg. 1987, bls. 74. |
H
ún var ekki lítil heiftin í deilunum sem skiptu Íslendingum í tvær fylkingar fyrstu áratugi lýðveldisins. Árum saman létu stjórnmálamenn, rithöfundar, verkalýðsfélög og fjölmiðlar, einkum Þjóðviljinn, landráðabrigslin dynja á réttkjörnum stjórnvöldum í landinu. Deilurnar um varnarsamstarfið við Bandaríkin og aðildina að Atlantshafsbandalaginu skiptu landsmönnum í tvær fylkingar sem tókust á, áratugum saman. Hámarki náðu átökin með árásinni á alþingishúsið hinn 30. mars árið 1949 eins og kunnugt er, en þær stóðu engu að síður í áratugi eftir það. Önnur deilumál hafa einnig náð að skipta landsmönnum í slíkar fylkingar, þó þær deilur hafi staðið skemur. Aðildin að EFTA, álverssamningarnir, aflamarkskerfið í sjávarútvegi, aðildin að evrópska efnahagssvæðinu eru dæmi um slík hitamál. Frá síðustu árum geta tvö mál komist eitthvað í líkingu við deiluna um EES-samninginn; það er að segja deilan um gagnagrunn á heilbrigðissviði og þó fremur deilurnar um virkjanir á hálendinu, einkum sú deila sem kennd er við Kárahnjúka. Önnur hitamál frá seinni árum, svo sem „öryrkjamálið“, eru meiri dægurmál, þó vissulega hafi mörgum hitnað í hamsi um skeið.
Það mál sem fjölmiðlamenn eru að springa úr áhuga á þessa dagana, „fjölmiðlafrumvarpið“, er ekkert í líkingu við neitt af þessu og er langt því frá. Að vísu getur ofsafenginn áhugi fjölmiðlamanna á fjölmiðlamönnum náð að brengla raunveruleikaskyn þeirra nokkuð, en það breytir ekki því að deilur um það eru afar fjarri því að rista eins djúpt og um þau mál sem hér hafa verið nefnd. Það segir eiginlega meira en mörg orð, að jafnvel eftir margra vikna stanslausa áróðursherferð allra helstu fjölmiðla Íslands nema Morgunblaðsins, telur formaður Blaðamannafélags Íslands að ekki sé hægt að fá neinn sæmilegan fjölda manna til að skrifa undir áskoranir vegna frumvarpsins, jafnvel ekki þó menn „láti öllum illum látum“, innheimti alla greiða, tali við ættingja sem þeir hafa ekki heyrt í um margra ára skeið – nei, hann telur meira að segja nauðsynlegt að leita til stuðningsmanna frumvarpsins og biðja þá um að taka þátt í undirskriftasöfnun gegn málinu! Og er þó ætlunin að safna undirskriftum á netinu, sem er einhver markminnsta leið sem völ er á til að kanna hug fólks til mála. Þetta er nú deilumálið sem einhverjir halda að sé að reka venjulegt fólk ofan í skotgrafir. Það merkilega er svo að háværustu andstæðingar frumvarpsins hafa nær allir lýst því yfir að þeir telji mikla nauðsyn á lögum um starfsemi fjölmiðla, bara ekki alveg svona lögum. Andstaða þeirra er ekki byggð á einhverju grundvallarsjónarmiðið heldur standa þeir á öndinni yfir „málsmeðferðinni“ og útfærslu laganna. Þeir deila um prósentur en ekki princip. Gervöll stjórnarandstaðan vill lagasetningu um starfsemi fjölmiðla. Þau lög vill hún setja sjálf. Á meðan það stendur ekki til boða verður hún á móti þeim.
Sú kenning hefur nú einnig verið sett á flot að forseti Íslands eigi sérstakan „málsskotsrétt“ sem hann geti notað til að „vísa málinu til þjóðarinnar“, og væri það þá rökstutt með því að á ferð væri svo ofboðslegt mál að ekki væri hægt að treysta þjóðþinginu fyrir því heldur yrði „þjóðin sjálf“ að koma að því. Sú kenning er einkennileg, eins og best sést af því að í sögu lýðveldisins hafa deilumál eins og þau sem hér voru nefnd aldrei þótt réttlæta slíkt inngrip í þingræðisregluna. Það verður vissulega að skoða „synjunarvald forseta“ í samhengi við þau mál þar sem forseti hefur hafnað því að málavextir geti réttlætt það að hann gangi gegn þingræðinu. Þegar litið er til þeirra mála sem ekki þóttu réttlæta synjun forseta og þau svo borin við hugsanleg lög um starfsumhverfi fjölmiðla, þá sést vel hve hugmyndin um synjun nú er fjarstæðukennd:
* Varnarsamningurinn við Bandaríkin var ekki slíkt deilumál að réttlætti synjun forseta.
* Aðildin að EFTA var ekki mál sem réttlætti synjun forseta.
* Álverssamningarnir við Alusuisse voru ekki mál sem réttlætti synjun forseta.
* Kvótakerfið í sjávarútvegi var ekki slíkt deilumál að réttlætti synjun forseta.
* Aðildin að hinu evrópska efnahagssvæði var ekki mál sem réttlætti synjun forseta.
* Gagnagrunnur á heilbrigðissviði var ekki mál sem réttlætti synjun forseta.
* Heimildin til byggingar Kárahnjúkavirkjunar var ekki slíkt deilumál í samfélaginu að réttlætti synjun forseta.
* Lög vegna dóms Hæstaréttar í „öryrkjamálinu“ voru ekki slíkt deilumál að réttlætti synjun forseta.
Og sama á við um fjölmiðlafrumvarpið ef það verður að lögum; þeir sem vilja ekki una þeirri ákvörðun löggjafans verða þá annað hvort að leita til dómstóla eða þess þings sem næst verður kjörið. Sameiningartákn þjóðarinnar svokallað getur ekki hlaupið þar undir bagga. Andstæðingar frumvarpsins, frjálshyggjumenn og andstæðingar samkeppnisreglna eins og Vefþjóðviljinn, geta ekki ætlast til þess að Ólafur Ragnar Grímsson sláist með þeim í baráttuna. Þessi barátta verður eins og aðrar að fara fram án hans liðveislu.