Í
Fjölmiðlafrumvarpið er dæmi um hætturnar sem „samkeppnisyfirvöld“ hafa í för með sér. |
dag kemur frumvarp til breytingar á útvarps- og samkeppnislögum að öllum líkindum til síðustu umræðu á Alþingi. Vefþjóðviljinn hefur frá upphafi sínu lagst gegn hvers kyns samkeppnislöggjöf gegn einkafyrirtækjum, þessari sem annarri. Hinn 13. janúar síðastliðinn sagði hér í blaðinu „Þeir sem vilja banna mönnum að vera umsvifamiklir útgefendur eru í raun ekki að biðja um annað en að blöð verði rifin af lesendum og lokað fyrir viðtæki manna. Neytendur eiga að hafa síðasta orðið um hvaða fjölmiðlar lifa og hverjir ekki. Vandamál íslenskra fjölmiðlanotenda til þessa hefur verið að stjórnmálamenn hafa ákveðið að stórum hluta hvaða fjölmiðla neytendur kaupa því landsmenn eru neyddir til áskriftar að Ríkisútvarpinu. Er það í alvöru sem menn halda því fram að færa þurfi aukið áhrifavald um það hvaða fjölmiðlar starfa hér frá neytendum til pólitíkusa?“ Þessi afstaða hefur verið ítrekuð margsinnis undanfarnar vikur og rétt að gera það einu sinni til nú þegar stefnir í afgreiðslu frumvarpsins.
Þetta frumvarp er ekki aðeins slæmt út af fyrir sig heldur er með þessu frumvarpi skapað slæmt fordæmi um íhlutun í atvinnulífið. Eins og heyra má á andstæðingum frumvarpsins á alþingi eru þeir ekki andvígir því að sett séu lög um þessi mál heldur vilja þeir hafa þau öðruvísi. Það er í raun óþarft að rifja upp gömul ummæli þeirra um þessi mál. Þessi þrá til að setja auknar reglur um fjölmiðla kemur fram í nær hverri ræðu stjórnarandstæðinga þessa dagana enda er það „málsmeðferðin“ sem er þeim hugleiknust en ekki málið sjálft.. Þeir vilja allir auknar reglur um hver og hvernig á að gefa út blöð og útvarpa. Bara ekki þessi lög. Það er miður að þeim eða öðrum sem síðar kunna að komast til valda sé gefið þetta fordæmi.
En mikilvægasti lærdómurinn sem menn gætu dregið af þessu máli öllu saman er að á meðan hér eru víðtæk samkeppnislög og önnur samkeppnisyfirvöld en neytendur verður alltaf freistandi og þægilegt fyrir stjórnmálamenn að setja lög af þessu tagi. „Samkeppnisstofnun skal hafa eftirlit með…“. „Samkeppnisyfirvöld skulu grípa til ráðstafana…“. Það breyttist ekki, þegar nafni Verðlagsstofnunar var breytt í Samkeppnisstofnun, að stofnunin er beittasta vopn stjórnmálamanna gegn frjálsum markaði.
E inhverjir undrast sjálfsagt að heyra af því í fréttum að á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gærkvöldi hafi fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar borið á góma. Og ekki nóg með að það hafi borið á góma, um það var rætt í löngu máli og loks ályktað um það. Það myndi vissulega vekja furðu ef slík uppákoma yrði á venjulegum borgarstjórnarfundi, en að þessu sinni vill svo til að ofureinföld skýring er á því að meirihluti R-listans kaus að ræða þingmál en ekki borgarmál. Skýringin á þessu verður öllum ljós um leið og þeir kynna sér dagskrá þessa tiltekna borgarstjórnarfundar, en þar var ársreikningar borgarinnar fyrir síðasta ár til umræðu. Þegar slík feimnismál eru á dagskránni er vissara að grípa til þeirra ráða sem duga til að beina athyglinni annað. Og árangurinn lét ekki á sér standa; fjölmiðlar sögðu rækilegar fréttir af umfjölluninni sem ekkert erindi átti inn á fundinn, en virtust ekki verða varir við að þar hefði mikilvægt málefni borgarinnar verið til umræðu.
Fjármál borgarinnar hafa verið í mikilli óreiða allan þann tíma sem R-listinn hefur setið við völd og ekkert virðist ætla að rætast úr þó að skipt hafi verið um aðstoðarborgarstjóra Alfreðs Þorsteinssonar. Þórólfur Árnason virðist engu líklegri til að ná tökum á fjármálum borgarinnar en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Heildarskuldir borgarinnar hafa á föstu verðlagi ríflega þrefaldast frá því að R-listinn tók við og hreinar skuldir hennar hafa ríflega sexfaldast. Alfreð og R-listinn hafa reynt að útskýra þetta með miklum framkvæmdum við Nesjavelli, líkt og borgin hafi aldrei fyrr staðið fyrir nokkrum framkvæmdum, en staðreyndin er sú að Nesjavellir skýra einungis fjórðung skuldasöfnunar borgarinnar.
Borgarsjóður var í fyrra rekinn með miklum halla, 1,2 milljörðum króna, þrátt fyrir að skatttekjur á mann hafi á föstu verðlagi hækkað um 45% á síðustu sex árum. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að R-listanum er ómögulegt að reka borgina með skikkanlegum hætti og engar líkur eru á því að honum muni takast að hætta skuldasöfnuninni, hvað þá að lækka sívaxandi skuldabyrðina. Þegar þetta er haft í huga er, eins og áður sagði, afskaplega skiljanlegt að R-listinn kjósi að ræða þingmál en ekki borgarmál.