Dagný Jónsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins er reið. Hún reiddist í gær þegar hún las auglýsingu frá nokkrum framsóknarkonum. Ástæðan fyrir reiði Dagnýjar er til umfjöllunar í pistli á vef hennar og reiðin er skiljanleg. Dagnýju er lítið um að látið sé í það skína í fréttum að allar framsóknarkonur séu reiðar formanni flokksins vegna væntanlegra breytinga á ráðherraliði flokksins í haust. Dagný segist tilheyra þeim „hópi kvenna og karla sem vilja velja einstakling hverju sinni sem hentar best í það hlutverk sem velja á í. Það er minn skilningur á nútíma jafnréttisbaráttu, en maður veltir því fyrir sér hvort þessi barátta snúist kannski frekar um framgang ákveðinna kvenna fremur en kvenna almennt.“
Þessi afstaða þingmannsins er ánægjuleg, enda lítið vit í að velja fólk til starfa eftir kynferði þegar augljóst er að hæfileikarnir ráðast ekki af kynferðinu heldur af ýmsum einstaklingsbundnum eiginleikum. Og það er sérstaklega skiljanlegt að konur skuli halda fram þeim skoðunum sem Dagný gerir, því að þegar þau sjónarmið eru höfð uppi að velja skuli konur umfram karla liggja allar konur sem veljast til einhverra starfa undir grun um að hafa valist vegna kynferðis en ekki hæfileika. Þingmaðurinn Dagný má þannig til dæmis, og ef til vill að ósekju, þola það að fólki detti í hug að hún sé þar sem hún er vegna kynferðis en ekki vegna eigin kosta. Þetta er vitaskuld óþolandi staða, sérstaklega fyrir konur í áberandi störfum, en alkunna er að hvenær sem slíkt starf losnar koma fram kröfur um að velja skuli konu. Bara einhverja konu til að tryggja kynjahlutföll í stað þess að tryggja vandað val.
Í fyrrnefndri auglýsingu framsóknarkvennanna, sem framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna hefur tekið undir, er vísað til laga Framsóknarflokksins um jafnrétti. Þar eru ef til vill lög sem Dagný ætti að beita sér fyrir breytingum á. Önnur lög sem hún mætti reyna að fá breytt eru lög um jafnrétti sem samþykkt hafa verið á Alþingi og hafa oft orðið tilefni stórfurðulegra málaferla og jafnvel stöðuveitinga.