Fimmtudagur 19. ágúst 2004

232. tbl. 8. árg.

Ítilefni af ráðherraskiptum í haust mun Femínistafélag Íslands hafa sent frá sér ályktun þar sem sagt er „hreint glapræði“ ef konum á ráðherrastólum fækkar. Fjölmiðlar sögðu að minnsta kosti frá ályktuninni á þennan veg og vitaskuld án þess að gera athugasemdir. Það er hins vegar vandséð hvaðan Femínistafélaginu koma þessar áhyggjur, því legið hefur fyrir í hálft annað ár að Sigríður Anna Þórðardóttir taki við umhverfisráðuneytinu í næsta mánuði, en Siv Friðleifsdóttir láti þá af því sama embætti. Með öðrum oðrum, það var ekki gert ráð fyrir nokkurri breytingu á kynjahlutföllum í ríkisstjórninni. Þetta hefur legið fyrir lengi og ætti meira að segja að vera fréttamönnum kunnugt. Það sem ekki hefur hins vegar legið fyrir, er hvort framsóknarmenn gera aðra breytingu á sínu ráðherravali, hvort Siv muni, eftir að hafa látið af umhverfisráðuneytinu, taka við öðru ráðuneyti á kostnað einhvers félaga síns í Framsóknarflokknum. Það hefur með öðrum orðum verið ljóst í hálft annað ár að konum í ríkisstjórn myndi ekki fækka; það sem ekki hefur verið ljóst er það hvort þeim verði fjölgað um eina.

Annað félag, ekki þýðingarminna en Femínistafélag Íslands, er kjördæmisráð Framsóknarflokksins í suðvesturkjördæmi – eða eitthvað slíkt – mun einnig hafa sent frá sér ályktun þar sem sagt er að það sé afar þýðingarmikið fyrir kjördæmið að frá því komi ráðherra. Ekki mun það útskýrt sérstaklega af hvaða ástæðum það sé þýðingarmikið – því varla ætlast þetta virðulega félag til þess að ráðherrar séu fremur ráðherrar tiltekinna kjördæma en landsins alls – en hvernig sem því er varið, þá má hughreysta suðvesturmenn með því, að sá ráðherra sem bætist við ríkisstjórnina, Sigríður Anna Þórðardóttir, er einmitt þingmaður þessa sama kjördæmis, og munu því eftir sem áður þrír ráðherrar koma úr því kjördæmi. Þar að auki er rétt að muna að Halldór Ásgrímsson hefur margsinnis ekið í gegnum kjördæmið á leið sinni til og frá Keflavíkurflugvelli.

Eitt af því sem er hvimleitt í umræðu um mál sem þessi, er gasprið í pópúlistum. Þannig er Kristinn H. Gunnarsson, sem á þessu augnabliki er staddur í Framsóknarflokknum, tíður viðmælandi fréttamanna, enda óþreytandi að hallmæla félögum sínum. Sérstaklega er honum umhugað um „grasrótina“ í Framsóknarflokknum og telur sjálfan sig í einstaklega miklum tengslum við hana, öfugt við til dæmis Halldór Ásgrímsson og Guðna Ágústsson, sem öfugt við Kristin hafa lifað og hrærst – að því marki sem þessir mætu menn hrærast – í Framsóknarflokknum alla sína tíð. Kristinn H. Gunnarsson hefur hins vegar rekið erindi Kristins H. Gunnarssonar í hinum og þessum flokkum og félögum. Auðvitað er Kristinn eins og aðrir frjáls til þess að reyna fyrir sér þar sem honum hentar hverju sinni, en þeir sem ógjarnan hafa getað fest rætur nokkurs staðar, þeir ættu hugsanlega að tala sem því nemur sjaldnar um tengsl sín við grasrótina.