Helgarsprokið 18. janúar 2004

18. tbl. 8. árg.
Efasemdir heyrðust einnig á fundinum. Albert Johnson kvað það vissulega góðum drengjum samboðið að verða ættjörð sinni að liði, en hér væri blandað saman „business og ættjarðarást. Lagði hann til að stjórnvöld á Íslandi tækju fyrirtækið að sér sem þjóðareign og Vestur-Íslendingar byðust þá til að gerast kaupendur að skuldabréfum landsins sem svaraði verði eins skips.
 – Guðmundur Magnússon í Lesbókinni í gær.

Þannig lýsir Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og höfundur bókar um sögu Eimskipafélags Íslands fjölmennum og fjörugum fundi Vestur-Íslendinga í Góðtemplarahúsinu í Winnipeg haustið 1913 en fyrir fundinum lá tillaga um að skipa nefnd til að vinna að fjárframlögum Vestur-Íslendinga til stofnunar skipafélags á Íslandi. Þennan fund og önnur afskipti Íslendinga í Vesturheimi af stofnun hlutafélagsins Eimskipafélags Íslands árið 1914 rifjar Guðmundur upp í tilefni af 90 ára afmælis félagsins í gær. Það er skemmst frá því að segja að Alberti þessum Johnson varð ekki að ósk sinni heldur hitt að fyrr en varði höfðu um 1.200 manns vestan hafs reitt af hendi stóran hlut af heildarhlutafé Eimskipafélagsins. Ekki hefur það einvörðungu verið gert með von um efnahagslegan ávinning. Ættjarðarást og einhvers konar skyldurækni við íslensku þjóðina virðist miklu fremur hafa hvatt þessa landa okkar til þess að láta fé af hendi rakna til þess þjóðþrifaverkefnis sem stofnun íslensks skipafélag var á þessum tíma. Frá þessu segir Guðmundur í grein sinni og lýsir um leið vel því sem merkilegast er við stofnun Eimskipafélags Íslands, aðdragandanum að hinni almennu hlutaeign í félaginu en með stofnun Eimskipafélagsins urðu þúsundir Íslendinga hluthafar.

„Þess má svo geta að framlag Vestur-Íslendinganna til Eimskipafélagsins kom seinna háskólastúdentum til góða er ákvörðun var tekin um að hlutafé Íslendinganna rynni í sjóð til styrktar Háskóla Íslands. Hugsjónir þessa fólks og vilji til verka hefur því nýst til fleiri framfaramála hér á landi en reksturs skipafélags. “

Eins mikið og mönnum hættir stundum til að líta á nútímann, og nútímalegar aðferðir, sem svo miklu mun betri en gamla tímann og háttalag sem kennt er við hann, þá er athyglivert að hafa í huga þá aðferð sem menn kusu að viðhafa við stofnun Eimskipafélagins. Í stað þess að reiða sig á opinber fjárframlög, fjármögnuð með nauðungargjöldum skattgreiðenda, var farin sú mun viðkunnalegri leið að vinna viðskiptahugmyndinni raunverulegs fylgis og stuðnings og byggja félagið á grunni frjálsra fjárframlaga. Þetta var nú vinnulagið árið 1914. Það má alveg velta því fyrir sér hvort þetta fyrirkomulag hafi ekki einmitt verið forsenda þess gæfuríka ferils sem Eimskipafélagið hefur átt, nú í 90 ár.

Þrátt fyrir að sagan geymi mörg dæmi þess að virkja megi þúsundir einstaklinga til að hrinda framafaramálum úr vör þykir mörgum enn við hæfi að beita annarri aðferð. Sú aðferð felst vissulega í því að virkja menn en með nokkuð öðrum hætti. Helsti munurinn felst í því að menn eru ekki spurðir hvort þeir vilji leggja verkefninu lið heldur einfaldlega látnir gera það með atbeina ríkisvaldsins. Algengast er að menn séu einfaldlega skattlagðir og þannig neyddir til að styðja málið. Líka er til í dæminu að settar séu reglur sem kenna mönnum að haga sér á ákveðinn hátt.

Yfirleitt vantar ekki að talsmenn þess að ríki og sveitarfélög taki tiltekin verkefni að sér telja verkefnin afar brýn, „þjóðhagslega hagkvæm“, „vilji þjóðarinnar“, „spurningu um það hvort við höfum efni á að vera þjóð“, „því það sé nú eytt í annað eins“, „því við stöndum þeim löndun sem við viljum helst bera okkur saman við langt að baki“ að því ógelymdu að sífellt fleiri mál eru orðin „sjálfsögð mannréttindi“. Talsmenn aukinna opinberra umsvifa eru nær aldrei spurðir að því hvernig það geti verið að mál sem njóti svo almenns stuðnings hjá þjóðinni og allt mæli með þurfi atbeina ríkisins. Jafnvel er til í dæminu að mennirnir haldi því einfaldlega fram að verkefnin séu arðbær (án þess að skeyta „þjóðhagslega“ fyrir framan) en samt eru þeir ekki spurðir hvort þá liggi ekki beint við að leita þátttöku fjárfesta sem hafa hagnaðarvon að leiðarljósi.

Nokkur hópur manna hefur um árabil talið það spurningu um líf eða dauða íslensku þjóðarinnar að hér verði byggt enn eitt tónlistarhúsið. Svo margt hefur þetta verkefni sér til ágætis að um það hafa fjallað opinberir starfshópar og komist að þeirri niðurstöðu að hagnaðurinn sé ekki síðri en af Héðinsfjarðargöngum eða hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Eina leiðin til að nýja tónlistarhúsið verði í samræmi (hvorki minna né stærra) við vilja þeirra sem dreymir um slíkt hús er að þeir sjái sjálfir um að byggja það og láti þá sem telja fé sínu betur varið til annarra mála í friði.

Annað dæmi um menn sem mættu taka sér vinnubrögðin frá 1913 til fyrirmynda eru umhverfisverndarsinnar. Í stað þess að treysta á ríkið þegar taka þarf ákvarðanir um hvaða land verður nýtt undir virkjanir og hvað verði „ósnortin víðerni“ eiga náttúruverndarsinnar að nýta þann almenna stuðning sem þeir segjast hafa meðal þjóðarinnar til að bjóða betur í náttúruna en þeir sem vilja nýta hana undir atvinnustarfsemi. Þeir eiga hreinlega að taka yfir rekstur landsvæða sem þeir telja brýnt að vernda.

Einhverjum kann að finnast það óraunhæft að ætla að afla almenns stuðning við hugmyndir um aðkomu einkaaðila að verkefnum sem þessum. Sagan hefur þó sýnt að með þrautseigju og viljann að vopni er hægt að virkja nógu stóran hóp manna til að koma að verkefnum sem við fyrstu sýn virðast afar stór. Vestur-Íslendingarnir féllust á málefnaleg rök áhugamannanna um skipafélag á Íslandi og létu sjálfviljugir af hendi rakna fé til málsins.

Þess má svo geta að framlag Vestur-Íslendinganna til Eimskipafélagsins kom seinna háskólastúdentum til góða er ákvörðun var tekin um að hlutafé Íslendinganna rynni í sjóð til styrktar Háskóla Íslands. Hugsjónir þessa fólks og vilji til verka hefur því nýst til fleiri framfaramála hér á landi en reksturs skipafélags.