Kolbrún sagði við DV að þannig verði refsing ekki lögð við því að stunda vændi en að öðru máli gegni um kaup á því. Með því móti verði áhersla í raun lögð á að vel stæðir menn nýti sér ekki neyð þeirra sem hafa viljað stunda vændi. Þetta sé viðsnúningur frá núgildandi lögum því að nú sé refsivert að framfleyta sér á slíku. |
– Frétt DV í gær um væntanlegt lagafrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur sem gera á kaup á vændi refsiverð. |
Áundanförnum árum hefur farið fram mikil barátta gegn svonefndum nektardansi. Upphaflega var sú barátta sögð fara fram til að vernda dansarana þótt dansararnir sjálfir vildu ekki taka þátt í henni. Eftir því sem leið á baráttuna gegn dansinum kom sífellt betur í ljós að það var ekki umhyggja fyrir dönsurunum sem réð för heldur einhvers konar kláði á sálinni undan meintum siðferðisbresti náungans. Flestar tillögurnar – og síðar aðgerðirnar – gegn dansinum miðuðu að því að gera aðstæður dansaranna verri en þær þyrftu að vera. Mikið var lagt upp úr því að koma „búllunum“ úr miðbænum, helst í skúra í iðnaðarhverfum. Þá var lagt til atlögu við atvinnuleyfi erlendra dansara. Síðan var gripið til þess óyndisúrræðis að banna einkadansinn, helstu tekjuöflunarleið dansaranna. Ef menn fá á annað borð leyfi til að dansa þá verða þeir að gera það fyrir lægri laun en áður og helst í iðnaðarskemmum.
Um þessar mundir er ýmislegt tínt til svo banna megi vændi. Hvergi dregið undan í lýsingum á skuggahliðum. Kolbrún Halldórsdóttir bætir þessu í sarpinn: Vel stæðir menn nýta sér neyð þeirra sem vilja stunda vændi. Aha, vel stæðir. Látum vera að einhverjir láglaunamenn greiði fyrir vændisþjónustu en að „vel stæðir menn“ nýti sér þjónustuna það gerir útslagið. Þetta verður að banna. Eða þá að hækka hátekjuskattinn hressilega svo menn séu ekki svona vel stæðir.
En það er sannleikskorn í því sem fram kemur í fréttinni í DV. Þeir sem stunda vændi hafa tekið ákvörðun um að gera það frekar en eitthvað annað. Oft er það vafalaust ekki draumastarfið en engu að síður skárra en önnur sem bjóðast þegar allt er vegið.
Þórólfur Árnason borgarstjóri er farinn að koma fram í sjónvarpsauglýsingum og lýsa því yfir að hann hafi ákveðið að taka þátt í einhverju sem er kallað „orkuátak“. Því miður tekur hann ekki fram í hverju framlag hans er fólgið, en sjálfsagt má giska á að hann hyggist leggja til heitt vatn, olíu og bensín á hagstæðu verði.