Menn hafa oft lýst því í ævisögum sínum hvernig það virðist hafa verið einskær tilviljun að þeir réðust til þess starfs sem þeir síðan gegndu alla sína starfsævi. Menn hafi ætlað sér t.d. að verða læknar en endað sem prestar. Þeir eru sjálfsagt ófáir sem hafa eytt sínum vinnudögum á vettvangi stjórnmálanna án þess að hafa nokkurn tímann stefnt sérstaklega að því. Flestir lýsa því svo hvernig þessi tilviljun hafi í raun verið kærkomin.
Því má velta fyrir sér hversu rosalega mikil tilviljun það hafi verið að sá er gegnir starfi umboðsmanns neytenda í Svíþjóð hafi lent í því embætti. Það lítur að minnsta kosti út fyrir það að einhver tilviljun hafi verið þar að verki ef marka má fréttir af dómsmáli því sem embættið efndi til vegna áfengisauglýsinga í Svíþjóð. Umboðsmaður sænskra neytenda krafðist þess að hinu lögfesta auglýsingabanni yrði framfylgt af fullri hörku, en þannig hafði háttað til að sænskt matartímarit, Gestgjafi þeirra Svía, hafði löngum birt áfengisauglýsingar. Það, að málsvari neytenda telji það þjóna hagsmunum skjólstæðinga sinna að upplýsingum frá framleiðendum sé með skipulögðum hætti haldið frá þeim, er furðulegt. Það er auðvitað hagur neytenda að fá upplýsingar um vöruúrval á hverjum tíma. Með auglýsingum tengjast neytandinn og framleiðandinn með ákveðnum hætti, sem jafnvel getur skapað aukinn rétt til handa neytandanum. Óbeinar auglýsingar eins og umfjöllun um áfengi eru auðvitað gagnlegar svo langt sem þær ná. En með því að líta út fyrir að vera „hlutlaus“ umfjöllun eru þær þó oft til þess fallnar að villa fyrir um neytendum sem sjaldan fá upplýsingar um hver hlutur framleiðandans er í umfjölluninni.
Umboðsmaður Svía taldi sem sagt mikilvægt að berjast gegn beinu auglýsingunum. Það væri skiljanleg afstaða ef hugur þess er starfinu gegnir hefði staðið til þess að veita forstöðu stórstúku en hefði fyrir tilviljun lent í því að bera hag neytenda fyrir brjósti. Tilviljunin sú er þá ekki kærkomin, að minnsta kosti ekki neytendum.