Hrafnkell A. Jónsson, héraðsskjalavörður og fyrrum formaður Verkalýðsfélagsins Árvakurs á Eskifirði, ritar stutta grein í Morgunblaðið í dag. Fjallar hann þar um þá „aumingjagæsku“ sem hann segir tröllríða allri fjölmiðlaumræðu, nú þegar styttist til kosninga. Nú séu skyndilega allir orðnir fátækir, jafnt ungir, gamlir sem miðaldra. „Það eiga allir svo óskaplega bágt. Það er yfirþyrmandi fátækt í hverju horni og enginn, ekki einn einasti, á sjálfur sök á hvernig komið er. Ef einhver biður um skilgreiningu á því hvað falli undir það að vera fátækur, þá bólgna viðmælendur út af réttlátri vandlætingu. Hinir djúpvitru spyrlar sem með réttu ættu að vera á fullri ferð að kynna sér hið ógnvekjandi ástand, þeir fá störu, og enn sem komið er hef ég engan séð gera tilraun til að sannreyna ástandið.“
Hrafnkell segist skrifa grein sína eftir að hafa horft á tvo lukkuriddara fátæktarumræðunnar í sjónvarpsviðtölum, fyrst Ágúst Ágúst Ágúst Ágústsson sem mun víst vera „formaður ungra jafnaðarmanna“ og því næst „nýjasta fulltrúa fátæka fólksins, Ellert B. Schram“. Hrafnkell segir réttilega að hinn fyrrnefndi hafi fullyrt að ungt fólk hafi aldrei átt jafnerfitt með að fá þak yfir höfuðið og er ekki nema mátulega hrifinn af slíkum málflutningi. Hrafnkell nefnir sem dæmi „ástandið þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen hleypti af stað verðbólguholskeflu sem rústaði efnahag ungs fólks á þeim tíma og leiddi af sér efnahagslega örðugleika heillar kynslóðar.“ Reyndar hefði Hrafnkell getað nefnt næstum hvaða tíma sem er því óhætt er að fullyrða, þvert á kosningagjamm minnislítilla eða ósvífinna ungkrata, að lífskjör hafi aldrei verið betri á Íslandi en á síðustu árum.
Það er hins vegar skemmtileg tilviljun að Hrafnkell nefni ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sérstaklega, því hún var einmitt mynduð 8. febrúar árið 1980 eins og menn muna. Nema kannski ungir kratar sem sjaldan virðast muna nokkurn skapaðan hlut þó það hindri þá vitaskuld ekki í að koma reglulega í fjölmiðla til að segja öðru fólki til. Hrafnkell A. Jónsson sem margt hefur séð í íslenskri verkalýðsbaráttu dæmir fullyrðingar „formanns ungra jafnaðarmanna“ sem þær séu „í besta falli dómur um fákænsku og í versta falli vitnisburður um tilraun til blekkingar“ og geta menn svo gert upp við sig hvort eigi betur við. En hvort sem þær eru vísvitandi blekkingar manna sem í æsingi segja hvað sem er til að æsa kjósendur á sitt band, eða þá ranghugmyndir manna sem fengu áhuga á stjórnmálum í fyrradag og höndluðu sannleikann í gær, þá eru stóryðingar ungra krata ætíð jafn fjarri raunveruleikanum.