Þ
Ríkisstarfsmenn þinga í Ríkissjónvarpinu um „galnar“ tillögur um heil 2% lækkun á tekjuskatti einstaklinga. |
að er ekki von á góðu frá hinni framfarasinnuðu frjálslyndu umbótastjórn kenndri við Þingvelli þegar einn af þingmönnum stjórnarinnar kallar tillögur í leiðara Viðskiptablaðsins um 2% lækkun á tekjuskatti einstaklinga gersamlega „galnar“ og „galskap af verstu sort“. Þetta gerði Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í gær og enginn í settinu sá ástæðu til að andmæla honum. Það er kannski ekki við öðru að búast þegar ríkisstarfsmenn sitja og ræða við aðra ríkisstarfsmenn í Ríkissjónvarpinu.
Hvað ætli Árni Páll myndi þá kalla tillögu um að lækka tekjuskatt einstaklinga úr 35,72% í til dæmis 30%? Mesta brjálæði í sögu mannkyns?
Viðskiptablaðið benti á það í nefndum leiðara að tillögur ASÍ um að hækka persónuafslátt á ákveðinn hóp myndi auka jaðaráhrif skattkerfisins í að minnsta kosti 50%. Hins vegar gætu stjórnvöld hæglega spilað út almennri lækkun tekjuskattsins, til dæmis upp á 2%. „Bein áhrif slíkrar lækkunar væri að minnka tekjur ríkisins um nálægt 12 milljörðum króna, sem veldur ríkinu engum vandræðum,“ sagði blaðið og átti sennilega ekki von á því að vera talið gersamlega galið fyrir vikið.
Annars var það lykilatriði í málflutningi Árna Páls um skattamálin að ekki mætti koma með svona skattalækkun „við þessar efnahagslegu aðstæður“. Já hljómar kunnuglega, ekki satt? Þetta er það sem samfylkingarmenn segja við hvaða efnahagslegu aðstæður sem er. Það er sama hvenær minnst er á skattalækkanir alltaf skulu kratarnir koma með eitthvað af þessu:
1. Skattalækkunin er aðeins fyrir þá efnameiri.
2. Skattalækkunin er gerð á röngum tíma. 3. Skattalækkunin er gerð með röngum hætti. 4. Skattalækkunin veldur þenslu af því óábyrgir einstaklingar ráðstafa fjármunum í stað góðgjarnra stjórnmálamanna. 5. Skattalækkunin veldur verðbólgu og viðskiptahalla. 6. Skattalækkunin vegur að rótum velferðarkerfisins því tekjur ríkisins skerðast. 7. Skattalækkun er skattahækkun því tekjur ríkisins hafa aukist við fyrri skattalækkanir. |
Í fréttum í gær kom fram að færri slösuðu sig á heitu vatni í Reykjavík á síðasta ári en árin á undan. Voru borgarfulltrúarnir 15 þá ekki taldir með?
Athugasemd. Vegna pistilsins hér að ofan um skoðanir Árna Páls Árnasonar á 2% skattalækkun vill Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður taka það fram að hún andmælti skoðunum Árna Páls í Silfri Egils með þeim orðum að sér þyki tillögur Viðskiptablaðsins prýðilegar. Þessi góðu orð Ragnheiðar Elínar skiluðu sér hins vegar ekki til áhorfenda þáttarins.