Ísíðustu viku var vikið að því hér í Vefþjóðviljanum að þeir hinir sömu starfsmenn RÚV og senda almennum borgurum áskoranir um að greiða afnotagjöld RÚV greiða ekki afnotagjöldin sjálfir. Deildarstjóri innheimtudeildar RÚV sendi Vefþjóðviljanum neðangreint bréf að þessu tilefni:
Reykjavík 25. júlí 2002 Andríki -Vefþjóðviljinn Í 205 tbl. 6. árg. 24. júlí sl. er m.a. verið að setja út á að afnotadeild RÚV heitir ekki lengur innheimtudeild. Ég skil vel að einhverjum mislíki það og biðst velvirðingar á þessari breytingu, en nafnabreytingin átti að lýsa betur starfsemi deildarinnar. Halldór V. Kristjánsson |
Svo mörg voru þau orð deildarstjórans. Hann staðfestir í raun það sem haldið var fram í pistli Vefþjóðviljans í síðustu viku. Starfsmenn RÚV greiða ekki afnotagjöldin. Þeir fara ekki eftir lögunum sem þeir vitna svo mjög í. Ríkisstofnanir geta auðvitað ekki tekið að sér að greiða skatta, eins og eignarskatta af viðtækjum sem afnotagjaldið er í raun, fyrir starfsmenn sína. Geta starfsmenn Ríkisskattstjóra kannski samið um að embættið greiði eignarskatta fyrir sig en greiði svo bara tekjuskatt af þeim hlunnindum?
Vef-Þjóðviljanum er því bæði ljúft og skylt að verða við þeirri ósk deildarstjórans að útvega honum fleiri nöfn þeirrra sem greiða ekki afnotagjöldin. Það má til dæmis benda honum á þá sjö starfsmenn „afnotadeildar“ sem ekki var getið um í fyrri pistli. Nöfn þeirra má finna á heimasíðu RÚV. Hann gæti líka horft á fréttir Ríkissjónvarpsins en þar birtast af og til nöfn þeirra sem greiða ekki gjöldin ásamt starfsheitinu fréttamaður.
En það er fleira í lögum um Ríkisútvarpið sem vekur athygli. Í 16. grein þeirra segir: „Innheimtustjóri Ríkisútvarpsins skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum.“ Forveri Halldórs V. Kristjánssonar í starfi hét Pétur Matthíasson og titlaði sig innheimtustjóra eins og lög gera ráð en hafði því miður ekki dómarahæfi eins og lögin kveða á um. Halldór V. Kristjánsson uppfyllir heldur ekki þetta ákvæði en hann er auðvitað ekki „innheimtustjóri“ heldur „deildarstjóri afnotadeildar“.