Föstudagur 2. ágúst 2002

214. tbl. 6. árg.

Heiftin getur farið langt með suma. Nú virðist hún ætla að duga þeim til að gera sérstaka hetju úr þeim framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs sem á dögunum var vikið tímabundið úr starfi eftir að Ríkisendurskoðun hafði gagnrýnt hann harðlega í nýrri skýrslu. Ekki er um það að ræða að þeir menn, sem nú vilja fylkja sér um framkvæmdastjórann fyrrverandi, séu almennir andstæðingar þess að opinberar stofnanir haldi bókhald og vilji því lýsa stuðningi við þann framkvæmdastjóra sem mun hafa vanrækt það árum saman. Nei, heift þessara manna beinist að tilteknum stjórnmálaflokki og engin meðul eru spöruð til að gera þann flokk og ráðherra hans tortryggilega. Hafa þeir meira að segja reynt að tengja tímabundna brottvikningu framkvæmdastjórans við tiltekinn kvikmyndagerðarmann en þessir menn vita að svo hefur sá kvikmyndagerðarmaður verið rægður – og hann sjálfur svo oft ögrað fólki með uppátækjum sínum – að vart þarf annað en nefna nafn hans til að tryggja sér pólitískan ávinning. Þannig er áberandi þegar borgarstjórnarkosningar nálgast að þá fer borgarapparatið af stað gegn þessum leikstjóra, sennilega í von um að úr verði hasar sem hægt sé að græða á.

Og nú reyna þessir heiftúðugu menn að sannfæra fólk um að í gangi sé ofboðslegt samsæri til að koma þessum góða framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs frá. Í síðustu viku sagði Vefþjóðviljinn frá vinnubrögðum tiltekins fréttamanns Ríkisjónvarpsins en af mörgu öðru er að taka. En sennilega mun þessu liði samt mistakast ætlunarverkið að þessu sinnu, þó reyndar sé til ákveðin gerð af fólki sem alltaf mun falla fyrir þess háttar fjarstæðukenningum og draga af þeim miklar ályktanir. Þessi nýjasta samsæriskenning er nefnilega of vitlaus, jafnvel fyrir þetta lið. Það liggur nefnilega fyrir að það var mikil óreiða á málum Kvikmyndasjóðs og framkvæmdastjórinn hafði hunsað áralangar umvandanir Ríkisendurskoðunar, þó sjálfsagt sé að geta þess að nú á síðustu mánuðum hafi þessi mál færst til betri vegar. En ef hér er í raun og veru um samsæri í gangi, þá er augljóst að framkvæmdastjórinn hefur sjálfur verið með í plottinu. Samsærið hefur þá sennilega hafist fyrir nokkrum árum á símtali í þessa veru:

– Kvikmyndasjóður góðan dag.
– Þetta er Björn Bjarnason menntamálaráðherra, er forstöðumaðurinn við?
– Augnablik, ég skal sjá, ég held að Friðrik Þór sé að fara frá honum núna, jú hann er laus, gerðu svo vel.
– Takk fyrir.

– Þorfinnur.
– Já góðan dag, er þetta Þorfinnur?
– Já.
– Já þetta er Bjössi hérna.
– Bjössi Bolla?
– Nei Björn Bjarnason menntamálaráðherra.
– Já góðan dag Björn, hvað get ég gert fyrir þig?
– Það er nú eitt og annað.
– Lát heyra.
– Ja fyrst og fremst er það bókhaldið.
– Bókhaldið?
– Já bókhaldið hjá sjóðnum, ég þarf að ræða það við þig.
– Úbbs. Ég hélt að það væri allt í lagi með það.
– Já það er nú einmitt málið. Ég þarf að biðja þig um að hætta að færa bókhald.
– Ha?
– Já, þú verður að hætta því alveg frá og með þessari stundu.
– Hætta að færa bókhald?
– Já, heyrirðu það, ekkert bókhald meir. Og kvittanir, ekki halda þeim saman. Ekki til að tala um.
– Ha?
– Þetta er áríðandi. Við vondu gæjarnir – þessir hörðu, þú veist – við þurfum nefnilega að tryggja Hrafni Gunnlaugssyni styrk úr sjóðnum eftir nokkur ár og þá þurfum við að geta rekið þig þegar þú ert búinn að neita Hrafni um styrkinn. Og þá vísum við til þess að þú hafir ekki haldið neitt bókhald í mörg ár.
– Já þá er náttúrlega nauðsynlegt að ég hætti að halda þetta helvítis bókhald.
– Já þú sérð það náttúrlega sjálfur.
– Það blasir að sjálfsögðu við. En hérna, hvað með Ríkisendurskoðun, verður hún ekki vitlaus?
– Jú jú, hún mun gera látlausar athugasemdir en þú bara hlustar ekki á það. Við ætlum nefnilega líka að vísa í það þegar við rekum þig.
– Auðvitað, það er líklega fullgild ástæða, ég skil. Ókei, en hvað á þetta að ganga lengi svona?
– Ja við höfum verið að hugsa um nokkur ár, það ætti að duga.
– Svona þrjú, fjögur ár?
– Það gæti sloppið, aðalmálið samt að þú hættir strax að færa bókhaldið.
– Já ókei, ég get reddað því og auðvitað bara gott að þurfa ekki að hugsa um það meir. En hérna, Björn..?
– Já?
– Verð ég ekki í einhverjum vandræðum?
– Vandræðum?
– Já, ég meina, ef ég verð gripinn með buxurnar á hælunum, verð ég þá ekki í algjörum skít?
– Ja sko, það er ekki sama hver grípur hvern. Ef við grípum einhvern, þá eignast hann um leið fjölda vina. Ég skal segja þér það Þorfinnur að þú verður orðin þjóðhetja áður en þú veist af. Fjöldi fólks mun allt í einu halda að kvikmyndagerð á Íslandi hafi hafist með þér og henni muni jafnframt ljúka með þér. Hafðu engar áhyggjur. Menn munu halda að við séum að reka þig af tómri illmennsku.
– Já ókei, það er dáldið til í þessu, en samt, ég meina hvað á ég að fara að gera? Ekki fer ég að reka Njálusetur eða eitthvað svoleiðis?
– Nei en það reddast, talaðu bara við hann Alfreð.
– Alfreð?
– Já Alfreð Þorsteinsson. Hann reddar þessu. Orkuveitu Reykjavíkur mun allt í einu vanta fjölmiðlafulltrúa, eða eitthvað.
– Já eða Línu.net? Já þú segir nokkuð, þetta er nokkuð gott plott. Ég sé að þú ert búinn að hnýta alla lausa enda. Ja maður, þú leynir á þér. Heyrðu, I’m in.
– Heyrðu, það er flott að heyra. Er þetta þá ekki klárt, þú hættir að halda bókhald, vanrækir það í nokkur ár, hunsar athugasemdir Ríkisendurskoðunar, við setjum þig af, þú verður þjóðhetja og allir ánægðir?
– Jú segjum það, mér líst bara nokkuð vel á þetta. Þú tryggir þá þetta með Orkuveituna?
– Ekki málið, ég verð sennilega kominn í stjórn Orkuveitunnar þá.
– Ha? Þú? Ekki ert þú í borgarstjórn? Halló? Bjössi? Bjössi? Björn, ertu þarna?