Þ
Jósteinn og félagar hjá Norðurfrakt á Siglufirði fengju að kenna á „almennum koldíoxíðskatti“ Samfylkingarinnar. |
að er að koma prófkjör hjá Samfylkingunni í Norðaustur kjördæminu og frambjóðendur gera allt nema koma naktir fram. Kristján L. Möller heitir einn þeirra. Hann hefur undanfarna daga farið mikinn í fjölmiðlum vegna matarverðs á landsbyggðinni sem er hærra en í Reykjavík. Kristján telur að þar sé ekki síst um að kenna háum sköttum á flutninga og hefur án efa nokkuð til síns máls. Vinstri menn vilja nefnilega gleyma því ansi oft að á endanum eru það neytendur sem greiða skatta á atvinnulífið í hærra vöruverði. Með þessari baráttu sinni hefur Kristján það fram yfir aðra frambjóðendur í prófkjörum vítt og breitt um landið að hann leggur megin áherslu á að hann sé í kolröngum flokki.
Í stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar var nefnilega boðað að þegar Samfylkingin hefði fengið 35% fylgi og myndað ríkisstjórn með Margréti Frímannsdóttur sem forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur sem ráðherra félagslega húsnæðiskerfisins, Guðmund Árna Stefánsson sem heilbrigðisráðherra, Gísla S. Einarsson sem ráðherra bílaviðskipta og Össur Skarphéðinsson líffræðing á Vesturgötu sem ráðherra matvöruviðskipta yrði tekið til óspilltra málanna við að leggja hér á „almennan koldíoxíðskatt“ svo vitnað sé í stefnuskrá fylkingarinnar.
Á mannamáli þýðir „almennur koldíoxíðskattur“ að allir sem voga sér að brenna jarðefnaeldsneyti, olíu, kolum og gasi verða skattlagðir. Flutningar með vörur til landsbyggðarinnar fara að öllu leyti þannig fram að vörurnar eru settar um borð í farartæki sem brennir jarðefnaeldsneyti á för sinni út á land og gefur þar með frá sér koldíoxíð.
„Almennur koldíoxíðskattur“ Samfylkingarinnar myndi því ekki síst leiða af sér enn hærra vöruverð á landsbyggðinni en nú er. Þetta er sama Samfylkingin og boðar „Evrópuverð“ á matvælum.