Fimmtudagur 6. september 2001

249. tbl. 5. árg.

Friðbert Traustason, formaður Sambands íslenskra bankamanna, hefur svo sem ekki þótt vera allra manna frjálslyndastur og ekki eru menn vanir því að yfirlýsingar forstjóra verkalýðsfélaganna séu sérstakt fagnaðarefni. En það er óhætt að hrósa Friðberti fyrir orð sem höfð voru eftir honum í gær. Þannig er mál með vexti, að hjá fjármálafyrirtækjum, sem eru í eigu banka og sparisjóða, starfar fjöldi fólks án þess að greiða félagsgjöld til Sambands íslenskra bankamanna. Þetta fólk er margt í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur og auk þess eru margir sem ekki eru í nokkru verkalýðsfélagi. Friðbert Traustason segir að hans menn telji að þetta sé brot á samningum sambandsins við bankana en engu að síður hafi Samband íslenskra bankamanna ekki látið reyna á þetta fyrir dómi.

Skýringin á þessu er, að sögn Friðberts, aðallega sú að „það sé ekki þeirra aðferð að fá fólk dæmt til að ganga í stéttarfélög, öndvert við það sem sum félög hafa gert. Í þessum efnum sé farsælast að fólk fái að ráða því sjálft hvar það telji hagsmunum sínum best borgið.“ Þetta eru góðar fréttir og vonandi vita þær á betri tíma fyrir fleiri en bankamenn. Af þessum orðum má ráða að þeir bankamenn, sem nú eru innan vébanda Friðberts og félaga án þess að hafa verið spurðir um það sérstaklega, ættu nú að geta sagt skilið við Samband íslenskra bankamanna án þess að missa starfið í leiðinni. Samband íslenskra bankamanna vill ekki fá menn dæmda í félagið og myndi því varla gerar miklar kröfur á hendur þeim sem æsktu „útgöngu“. Og ef einhver stefndi sambandinu og krefðist þess að vera tekinn af skrá, þá myndi sambandið varla krefjast sýknu og þar með þess að maðurinn yrði í raun dæmdur til að vera áfram í sambandinu.

Vonandi taka fleiri stéttarfélög Samband bankamanna til fyrirmyndar. Launamenn eiga enn flestir þá kosti eina að lúta verkalýðsforingjunum en vera atvinnulausir ella. Forystumenn verkalýðsfélaganna komast enn upp með það í raun að selja aðgang að íslenska vinnumarkaðnum, eða að minnsta kosti stórum hluta hans. Og þó oft sé svo látið heita að „forgangur verkalýðsfélaganna að störfum“ sé aðeins til kominn vegna frjálsra samninga fyrirtækja við verkalýðsfélögin, þá vita flestir hvernig þeir „frjálsu samningar“ eru oft til komnir. Margir minnast þess til dæmis þegar Lyst ehf., fyrirtæki sem rekur veitingastofur McDonalds á Íslandi, hóf rekstur og ætlaði að semja við starfsfólk án þess að spyrja verkalýðsforstjórana um leyfi eða greiða þeim verndargjald. Verkalýðsforystan tók því að sínum hætti og brást þegar við með því að raða bílum um öll stæði við veitingastaðinn svo viðskiptavinir kæmust ekki inn. Og við slíkar aðstæður líður sjaldnast á löngu þar til gengið er til „frjálsra samninga“ við verkalýðsfélögin, þeim er svo greitt verndargjaldið um hver mánaðamót og fyrirtækin mega starfa á meðan svo er.