Íslendingar fengu á síðasta ári silfurverðlaunapening í alþjóðlegum samanburði tímaritsins The Economist á fjölda starfsmanna í seðlabanka á íbúa. Íslendingar hafa 43 seðlabankastarfsmenn á hverja 100 þúsund íbúa og aðeins Rússar hafa fleiri starfsmenn við seðlaprentun eða 63 á 100 þúsund íbúa. Flestar þjóðir hafa hins vegar ekki nema 10 menn af hverjum 100 þúsund í seðlaútgáfu. Talsverð umræða hefur átt sér stað að undanförnu um hvaða mynt sé heppilegust fyrir Íslendinga. ESB trúboðar telja að sjálfsögðu evruna æðsta myntform veraldar þótt hún hafi hrokkið niður um fjórðung gagnvart Bandaríkjadal frá því hún var sett á legg fyrir hálfu öðru ári. Það hefur hins vegar lítið verið rætt hvort ríkið – hið íslenska eða önnur – eigi yfirleitt að stunda myntsláttu. Það er búið að einkavæða prentsmiðjuna Gutenberg og viðskiptabankar eru á sömu leið. Hvers vegna má Seðlabankinn ekki hljóta sömu örlög?
Það eru til mörg dæmi í sögunni um einkabanka sem gáfu út gjaldmiðla. Flestir gáfu þeir fyrirheit um að peningaseðilinn mætti leysa út fyrir ákveðið magn af gulli eða silfri eða jafnvel kopar. Sem dæmi má nefna Skotland á árunum 1716 til 1844, Nýja England á árunum 1820 til 1860, Kanada á árunum 1817 til 1914 og Kína 1644 til 1928 en dæmi um einkabanka í seðlaútgáfu má finna í yfir 60 löndum. Þegar þessi saga eru skoðuð virðist útgáfa peninga á vegum einkabanka oftast hafa verið stöðug og gengið ágætlega fyrir sig á þeim tímum. Aðstæður voru auðvitað mjög mismundandi frá einu landi til annars og frá einu tímabili til annars. Ef keppni var milli banka um seðlaútgáfu var það hagur bankanna að seðlum þeirra mætti skipta fyrir seðla annarra banka, á sama hátt og það er hagur banka í dag að viðskiptavinir geti tekið út fé í hvaða hraðbanka sem er.
Gullfóturinn hélt einnig aftur af seðlaprentun bankanna sem minnkaði jafnframt líkur á verðbólgu. Sagan gefur því ekki tilefni til ótta við frelsi á þessu sviði. Einkabankar geta auðvitað sett prentvélarnar í gang eins og seðlabankar á vegum ríkisins hafa gert, aukið framboð á seðlum, fellt þá í verði og komið af stað verðbólgu. En þeir gera það aðeins einu sinni. Einkarekinn seðlabanki þarf að halda viðskiptavinum sínum ánægðum eins og önnur einkafyrirtæki. Ef hann fellir gjaldmiðill sinn í verði með offramboði snúa viðskiptavinirnir sér annað. Seðlabanki ríkis sem hefur einkarétt á peningaútgáfu getur hins vegar leikið þetta aftur og aftur án þess að viðskiptavinir hans fái rönd við reist. Slíkt er í raun ekkert annað en eitt form skattheimtu. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að stjórnvöld um allan heim halda svo fast í seðlaprentvélarnar.