Helgarsprokið 4. febrúar 2001

35. tbl. 5. árg.

Almannagæði eru einhver lífseigasta afsökunin fyrir ríkisafskiptum. Landvarnir, umhverfisvernd, vegir og vitar eru þau dæmi sem gjarna eru nefnd um slík gæði. Þar sem auðvelt er að skjóta sér undan því að greiða fyrir þessa þjónustu en njóta hennar samt (laumufarþegar) vilja stjórnlyndir menn að ríkið sjái um hana og rukki alla með skattheimtu. Nú er það raunar svo að til eru ýmis dæmi um vegi þar sem notendur greiða beint fyrir notkun sína, vitar hafa verið í einkaeign og gjald fyrir þá innheimt í samfloti með höfnum og náttúruvernd er víða stunduð af einstaklingum og félögum án þess að viðkomandi líti á það sem vandamál að aðrir njóti einnig.

„Þegar margt fólk verður fyrir ytri áhrifum getur verið vandkvæðum bundið að nýta markaðsöflin, en það sama á við um opinberar lausnir.“

Richard L. Stroup prófessor í hagfræði við Montana State University ritaði grein sem bar yfirskriftina „Free Riders and Collective Action Revisited“ í The Independent Review á síðasta ári þar sem hann velti því fyrir sér hvort menn losni virkilega við laumufarþegavandamálið með því að láta hið opinbera sjá um málin. Stroup tekur dæmi frá Bandaríkjunum um lög til verndar lífverum í útrýmingarhættu (Endangered Species Act). Þessi lög gera yfirvöldum kleift að takmarka nýtingu á landi hvort sem það er í einkaeign eða eigu hins opinbera. Eigendum er ekki bætt það fjárhagstjón sem þeir verða fyrir vegna þessara takmarkana eða „friðunar“. Kostnaðurinn lendir með öðrum orðum ekki á þeim sem taka ákvarðanirnar, opinberum starfsmönnum og stofnunum sem þeir starfa fyrir, heldur landeigendum. Það kostar hið opinbera ekkert að „vernda“ landið. Þegar hlutir eru ókeypis leiðir það til ofnotkunar á þeim. Þeir opinberu aðilar sem eiga að sjá um verndun náttúrunnar ofnota því þennan kost. Að minnsta kosti er hætt við að þeir grípi frekar til friðunar lands (sem kostar þá ekkert) en að ráða nýjan líffræðing til að ráðleggja landeigendum um umgengni við landið, svo dæmi sé tekið. Þetta leiðir svo til þess að nú grípa landeigendur til ýmissa ráða til að flæma sjaldgæf dýr af landi sínu. Ef sjaldgæft dýr gerir sig heimakomið á landi á eigandinn á hættu að það verði „friðað“ og hann geti ekki nýtt það áfram til þeirra hluta sem hann hefur gert áratugum saman án þess að það hafi skaðað hina sjaldgæfu skepnu. Landeigendur hafa löngum átt gott samstarf við ýmis samtök sem vilja bæta lífsskilyrði hinna ýmsu dýrategunda, bæði til að geta notið þeirra og veitt hluta þeirra síðar. Við þetta bætist svo að þegar hið opinbera hefur tekið að sér svo stórt hlutverk í þessum málum snúa náttúruverndarsamtök sér einkum að því að beita stjórnvöld þrýstingi í stað þess að starfa beint að náttúruvernd. Þess vegna eru stóru umhverfisverndarsamtökin með skrifstofur sínar og marga starfsmenn í höfuðborgum en ekki í kofa í skógarjaðri eða við mýrarfláka.

Stroup tekur einnig dæmi af stuðningi ríkisins við kirkjur sem ýmsir telja eðlilegan þar sem kirkjur stuðli að betra mannlífi og það nýtist öllum. Fyrir tveimur öldum var það rætt í Connecticut og Massachusetts hvort hætta ætti greiðslum til trúfélaga. Þá var því haldið fram að það myndi ganga af trúfélögunum dauðum. Opinberum stuðningi var engu að síður hætt. Kirkjusókn jókst og trúarlíf blómstraði í kjölfarið. Kirkjuleiðtogar urðu nú enda að höfða beint til fólksins í stað þess að leita til stjórnmálamanna. Stroup bætir því við að þótt ríki og kirkja séu aðskilin í Bandaríkjunum sé hvergi meiri kirkjusókn meðal iðnvæddra þjóða og hvergi segist fleiri vera trúaðir en í Bandaríkjunum.

Þriðja dæmið sem Stroup nefnir eru landvarnir sem eiga að minnka líkurnar á því að landsmenn látist vegna stríðsátaka. Það megi hins vegar nota herinn til að auka líkurnar á því að landsmenn látist. Víetnam stríðið kostaði tugþúsundir Bandaríkjamanna lífið sem hefði ekki gerst án þess að öflugur her væri til taks. Það megi einnig velta því fyrir sér hvort afskipti Bandaríkjahers af öðrum löndum auki líkurnar á því að hryðjuverk séu framin í Bandaríkjunum.

Stroup lýkur grein sinni á eftirfarandi orðum: „Engin mannleg stofnun starfar á fullkominn hátt. Þegar útvega á tiltekna vöru fyrir tiltekið tilefni þarf að bera saman kosti og galla hverrar aðferðar á raunsæjan hátt. Það nægir ekki að benda aðeins á galla einnar aðferðar og álykta út frá því að aðrar séu betri. Það eru samskonar mistök og stúdentar gera þegar þeir meta arðsemi fyrirtækja án þess að bera þá arðsemi saman við arðsemi annarra kosta sem bjóðast. Sömu þættir og veikja einn kost geta einnig veikt þann næsta. Þegar margt fólk verður fyrir ytri áhrifum getur verið vandkvæðum bundið að nýta markaðsöflin, en það sama á við um opinberar lausnir. Gordon Tullock benti á að „framkvæmdir á vegum almannavaldsins eru almannagæði“ og það ásamt því sem sagt hefur verið í þessari grein ætti að hafa í huga þegar mismunandi kostir eru bornir saman.“