Miðvikudagur 10. mars 1999

69. tbl. 3. árg.

Stundum er sagt að stjórnmálamenn segi nokkurn veginn hvað sem er til þess að krækja í atkvæði og skipti þá litlu hvort þeir hafi nokkra þekkingu á umræðuefninu eða nokkra sérstaka skoðun á því í raun. Þá mun einnig algengt að þeir gefi loðnar yfirlýsingar þar sem ekki verður fest hönd á nokkurri sérstakri tillögu eða nokkru sem síðar mætti herma upp á þá. Hitt er annað mál, að aðra sögu má nú segja af Sigríði Jóhannesdóttur þingmanni Alþýðubandalagsins á Reykjanesi. Í prófkjöri Þjóðvaka á Reykjanesi á dögunum gaf hún út bækling um sig og hugðarefni sín og þar var engin tæpitunga töluð.

Sérstaklega var áberandi hversu Sigríður kom hreint fram í sjávarútvegsmálum og lagði þar fram skýra stefnu þar sem ekki var farið í felur með hlutina. Um þau mál sagði Sigríður orðrétt og óstytt: „Ég vil að kvótakerfið heyri sögunni til í núverandi mynd og ég mun beita mér fyrir fiskveiðistefnu sem þjóðarsátt ríkir um“.

Hvað þarf meira að segja? Sigríður situr nú reyndar þegar á þingi og Vefþjóðviljinn hefur fregnað að hún hyggist nú á næstunni ljúka umræðum um fiskveiðistjórnun í eitt skipti fyrir öll með svohljóðandi lagafrumvarpi:

1. gr.
Lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða falli úr gildi.

2. gr.
Stjórn fiskveiða skal fara eftir þeirri stefnu sem þjóðarsátt ríkir um.

3. gr.
Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Sigríður Jóhannesdóttir.

Viðhorf til einkavæðingar hafa gerbreyst á síðustu árum og á það ekki aðeins við um hefðbundin atvinnufyrirtæki eins og á fjármálamarkaðnum og í stóriðju. Í síðustu viku seldi menntamálaráðherra einkaaðilum Skólavörubúðina og ólíkt því sem verið hefði fyrir nokkrum árum þá hafa óvinir einkavæðingarinnar, Ögmundur Jónasson, Jóhanna Sigurðardóttir & co., ekki þorað a hlaupa til og mótmæla hástöfum.

Þetta er vissulega fagnaðarefni og ber vott um að málstaður þeirra sem kjósa einkaframtak fremur en ríkisrekstur sé að sigra á öllum vígstöðvum. Hinir vita að enginn nennir lengur að hlusta á ævaforn mótmæli ríkisafskiptasinna. Þessi staðreynd verður ráðherrum vonandi hvatning til að halda áfram á sömu braut og má t.d. nefna að engin rök mæla með því að ríkið eigi skólahúsnæði og sjúkrahúsbyggingar eða sjái sjálft um rekstur slíkra stofnana.