Mánudagur 11. janúar 1999

11. tbl. 3. árg.

Að undanförnu hafa ítrekað komið upp deilur vegna skipulags verkalýðshreyfingarinnar og hvort tiltekin verkalýðsfélög eigi heima innan einstakra stéttarfélagasambanda eða ekki. Þannig hafa stór verkalýðsfélög yfirgefið BSRB Ögmundar Jónassonar að undanförnu og fleiri munu vera farin að hugsa sér til hreyfings. Einnig hafa komið upp harðar deilur um það, hvort félag á borð við Félag íslenskra símamanna geti gerst beinn aðili að ASÍ eða hvort félagsmenn verði að gerast félagsmenn ASÍ í gegnum önnur félög, sem þar eru fyrir, svo sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur.
    
Það er sérkennilegt að í allri þessari umræðu hefur ekkert verið minnst á frelsi félagsmannanna sjálfra. Mikið er gert úr sjálfsforræði og valfrelsi einstakra verkalýðsfélaga, en greinilega er litið svo á að engu máli skipti hvort félagsmennirnir eigi eitthvert valfrelsi eða sjálfsákvörðunarrétt í þessum efnum; þeir eiga bara að hlýða foringjunum og flytjast milli sambanda eftir því sem um semst á toppnum.

Þetta minnir okkur á, að þrátt fyrir að átt hafi að tryggja og teysta réttinn til að standa utan félaga með stjórnarskrárbreytingum 1995 hefur raunveruleikinn á vinnumarkaðnum ekkert breyst. Stór hluti launþega á hvorki val um hvort hann á yfir höfuð aðild að stéttarfélagi eða ekki né því í hvaða félagi hann lendir. Styðst þetta ástand við ákvæði í kjarasamningum, sem aftur styðjast við vafasöm lagaákvæði. Væri full ástæða til að fjölmiðlar og ýmsir lýðskrumarar innan þings og utan, sem mest hafa haft sig í frammi vegna stjórnarskrár og mannréttinda að undanförnu, tækju þetta mál til athugunar, enda er það mun verðugra viðfangsefni heldur en þeir hafa einbeitt sér að á síðustu vikum og mánuðum.