Þriðjudagur 12. janúar 1999

12. tbl. 3. árg.

„Ekki er það fyrsta skattahækkun okkar í Reykjavíkurlistanum á Reykvíkinga,“ ritaði R-listamaður nokkur í Morgunblaðið hinn 12. september 1995. Hann var að fjalla um hækkun R-listans á fargjöldum SVR. Var honum mikið niðri fyrir og taldi R-listann með borgarstjóra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í broddi fylkingar hafa brugðist hugsjónunum.

Lítum á fleira úr greininni:
„Það eru stundum eins og álög á okkur í félagshyggjunni að þegar við náum völdum glatast öll sýn, þverr okkur þróttur. Eins og við verðum samdauna kerfinu og fyrr en varir hefur bæst við ný sveit embættismanna, nefnilega við.“
Enn segir þessi ágæti R-listamaður:
„Við höfum engar lausnir, enga sýn, en sendum borgurunum reikninginn fyrir getuleysinu. Þeim sömu borgurum og við fullvissuðum um að við gætum gert hlutina betur.“

Kappinn sem vitnað er til heitir Helgi Hjörvar og er nú orðinn skattmann og krónprins R-listans. Nú heita gjaldahækkanir hjá SVR ekki lengur skattahækkanir eins og haustið 1995, en þess í stað hafa skattahækkanir hlotið heitið „lækkun gjalda“. Svona breytist heimurinn þegar vinstri menn komast að kjötkötlunum. Rétt eins og Helgi benti sjálfur á.

Pétur Blöndal er einn fárra þingmanna (ef til vill sá eini) sem þorir að vara við útþenslu ríkisins í menningargeiranum. Í haust varaði hann á þingi við nýjum leiklistarlögum og í DV í gær lýsir hann efasemdum um að menningarhús á landsbyggðinni eigi rétt á sér. „Þetta er stýring á menningu ofan frá þar sem menn ætla sér að þvinga fram einhverja menningu. Nú er það þannig að menning er eitthvað sem sprettu af sjálfu sér eða ætti að gera það,“ segir Pétur.

Sú ríkisstýrða menning sem er afar umsvifamikil hér á landi gefur ekki rétta mynd af því sem er í raun að gerast í landinu. Það á við um menningu eins og annað, að þegar hið opinbera fer að stýra því með fjárveitingum hvað menn taka sér fyrir hendur, þá skemmir ríkið fyrir eðlilegri þróun og kemur í veg fyrir að rétt mynd fáist. Hin síauknu umsvif ríkisins í menningarmálum er síst til þess fallin að bæta eða auðga menningarlíf hér á landi.

Nú hefur Ágúst Einarsson sagt að hann vilji „leiða lista Samfylkingarinnar á Reykjanesi“. – Og við sem héldum að hann væri með öllu húmorslaus!