Skilningsleysi á þeim vanda sem ríkisrekstri og ríkisafskiptum fylgir kemur oft fram opinberlega og gott dæmi þar um birtist í grein í Mogganum á þriðjudag undir fyrirsögninni Einkavæðing. Greinina ritar ungur sjálfstæðismaður frá Akureyri, Arnljótur Bjarki Bergsson, og telur hann ekki ástæðu til einkavæðingar til að ná fram hagræðingu. Hann virðist vera þeirrar skoðunar að einkafyrirtæki séu ekkert líklegri til að ná fram hagræðingu en ríkisfyrirtæki og að [þ]ar sem þrautþjálfaðir tölvuspekingar eru á mála hjá hinu opinbera ætti tæpast að þurfa einkavæðingu til að ná hagræðingu. Nema þeir séu ekki hæfir til starfans.
Arnljótur virðist sem sagt álíta að vandi ríkisrekstrar felist í rangri starfsmannastefnu. Séu réttu mennirnir ráðnir leysist vandinn af sjálfu sér. Þó er það þannig að þær aðstæður og umhverfi sem menn vinna í skipta verulegu máli um það hvernig þeir vinna. Sami maðurinn getur skilað góðu starfi við einar aðstæður en slæmu við aðrar og þar sem hvatinn til að skila góðu starfi er betri hjá einkafyrirtæki en hinu opinbera getur slæmur ríkisstarfsmaður orðið góður starfsmaður í einkafyrirtæki. Þetta á jafnt við um þá lægst og hæst settu. Þegar banki er í ríkiseign eru pólitísk afskipti af honum óhjákvæmileg og þar með augljóst að stjórnendur bankans og starfsmenn hugsa um fleira en bættan rekstur og hámörkun hagnaðar. Þessi pólitísku afskipti hafa menn séð í gegnum tíðina og sjá enn í umræðum sjálfskipaðra pólitískra sérfræðinga í bankarekstri um hugsanlega sameiningu og sölu banka.
Hvatinn sem einkabanki býr við er allt annar. Stjórnendur einkabanka reyna ekki að hámarka atkvæðamagn í næstu kosningum heldur hagnað fyrirtækisins. Þar er því reynt að tryggja að annarleg sjónarmið ráði ekki útlánastefnu eða öðru sem snertir rekstur bankans. Hið sama gildir því um bankarekstur og þjóðfélagið allt, það eru leikreglurnar sem mestu skipta en ekki þeir menn sem eftir þeim þurfa að fara hverju sinni.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var talað við Björn Bjarnason menntamálaráðherra um húsnæðismál Menntaskólans. Er nú stutt í að farið verði að nota stórt og mikið hús sem Davíð S. Jónsson heitinn og börn hans gáfu skólanum til minningar um Elísabeti, konu Davíðs. Til að húsið nýtist sem best er ríkið nú að byggja tengibyggingu yfir til þess úr núverandi húsum skólans. Mun tengibygging þessi kosta rúmlega 100 milljónir króna. Við þetta tækifæri bætti Björn því við að nú væri stefnt að fleiri byggingum við Menntaskólann, sem myndu mynda svokallað menntaskólaþorp og myndu þær kosta um eitt þúsund milljónir króna. Vefþjóðviljinn er ekki sérstakur andstæðingur Menntaskólans eða talsmaður þess að hús hans grotni niður. En milljaður króna? Það hlýtur að mega gera nægilega vel við skólann fyrir minna fé, jafnvel þó menn telji að saga hans skapi honum nokkra sérstöðu meðal skóla landsins. En kannske þykja ráðuneytismönnum milljaður ekki mikið. Þar á bæ eru víst til menn sem halda að það geti verið hagkvæmt fyrir ríkið að byggja tónlistarhús fyrir fjóra milljarða.