Margir stjórnmálamenn eru þeirrar skoðunar að fátt, ef nokkuð, eigi að vera þeim óviðkomandi. Það er alkunna að þeir vilja ákveða hvers almenningur neytir, hvenær og hvernig. Þeir segja fólki hvað það má innbyrða, hvort sem er gegnum munn, augu, eyru eða aðra líkamshluta ef því er að skipta. Þeir setja fyrir hvernig fólk á að sitja í bílum og láta sekta fólk fyrir að sitja vitlaust (þ.e. án öryggisbeltis). Og sífellt koma fram nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að leggja fólki lífsreglurnar um smæstu atriði.
Frumvarp um handfarangur í flugvélum sem liggur fyrir Bandaríkjaþingi er eitt dæmi um þetta. Í grein eftir Virginiu Postrel í nýjasta hefti Intellectualcapital.com kemur fram að frumvarp þetta geri ráð fyrir að óheimilt verði að hafa meira en eina handtösku með inn í flugvél. Hingað til hafa flugfélög og viðskiptavinir þeirra gert út um þetta sín á milli, en nú lætur einn þingmaðurinn sig dreyma um að fá að taka af þeim ráðin. Verði frumvarpið samþykkt mun það draga úr möguleikum á samkeppni milli flugfélaga og draga úr þróun í átt til betri nýtingar flugvéla, en slíkt veldur stjórnlyndum mönnum svo sem ekki áhyggjum. Þeir álíta vafalaust að þeir geti látið samkeppnina virka best með yfirgripsmikilli samkeppnislöggjöf og að þróun í farþegaflugi verði til í þingnefndum.
Forseti Íslands hefur eina ferðina enn veitt fálkaorðuna. Þessi siður er bæði undarlegur og kostar nokkurt skattfé. Tvisvar á ári fær rúmur tugur manna þessa orðu, yfirleitt fyrir að sinna störfum sínum. Þeir sem hafa þann starfa að rannsaka jörðina fá orðu fyrir störf að jarðvísindum, þiggi menn laun fyrir að halda uppi kennslu í verslunarfræðum fá þeir orðu fyrir kennslu í þeim fræðum og hafi menn lifibrauð af því að spila tónlist fá þeir orðu fyrir tónlist. Nú er þetta vafalítið yfirleitt hið mætasta fólk sem fær orðuna, en er veitingin samt ekki full hlægileg til að skattgreiðendur þurfi að halda áfram að fara dýpra í vasana sína hennar vegna?
Vef-Þjóðviljanum hefur borist bréf frá lesanda, sem veltir fyrir sér samkeppnismálum, knattspyrnu og tengdu efni.