Föstudagur 6. apríl 2007

96. tbl. 11. árg.
Hvað hefur gerst í Hollandi? Það er viðurkennt í skýrslu innanríkisráðherra, sem gefin var út fyrir um það bil þremur mánuðum, að fjölmenningarsamfélagið í Hollandi hafi beðið algert skipbrot. Það er frjálslyndasta þjóðfélag í heimi.
– Jón Magnússon frambjóðandi Frjálslynda flokksins lýsir vanþóknun sinni á ástandi mála í frjálslyndasta þjóðfélagi í heimi. Silfur Egils á Stöð 2 25. mars 2007.

F lest bendir nú til að stjórnarandstaðan verði í fimm pörtum á kjörseðlinum í vor. Liðsmenn Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins hafa þegar stofnað nýjan flokk, Íslandshreyfinguna, sem höggva á í raðir vinstri grænna. Svo mun von öðru á framboði frá baráttusamtökum aldraðra og baráttusamtökum gegn Reykjavíkurflugvelli. Val á slagorði þess flokks stendur yfir þótt það blasi við að „aldraðir taka ekki flugið“ með þessu framboði..

Það kemur því ekki á óvart að fólk sem þarf fimm flokka til að rúma skoðanir sínar sé ekki alveg sammála um allt.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur og varaþingmaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir í sjónvarpsþættinum Silfri Egils fyrir nokkru að á Íslandi væri „strangasta innflytjendalöggjöf“ meðal vestrænna þjóða. Eiríkur hefur nýlega ritað bókina, Opið land – staða Íslands í samfélagi þjóðanna, sem fjallar meðal annars um innflytjendamál og önnur samskipti Íslendinga við umheiminn. Eiríkur hefur því væntanlega kynnt sér þessi mál ágætlega. Þrátt fyrir þessa ströngu innflytjendalöggjöf hafa margir útlendingar komið til Íslands á liðnum árum. Nær allir hafa þeir komið til að vinna enda mælist atvinnuleysi meðal innflytjenda hér jafnvel minna en það 1% atvinnuleysi sem er meðal innfæddra. Þetta litla atvinnuleysi segir auðvitað ekkert annað en að allt tal um að útlendingar taki störf frá Íslendingum er ómarktækt.

Þótt helsti sérfræðingur Samfylkingarinnar telji íslensku innflytjendalöggjöfina þá ströngustu sem þekkist telur annar flokkur í kaffibandalagi stjórnarandstöðunnar, Frjálslyndi flokkurinn, að landamæri Íslands standi öllum opin og setja þurfi frekari hindranir gegn komu útlendinga hingað. Það blasir því við að stjórnarandstaðan segir nú íslenska innflytjendalöggjöf vera allt frá þeirri „ströngustu“ til þeirrar frjálslyndustu. Að sjálfsögðu er það Frjálslyndi flokkurinn sem kvartar yfir því hvað hún er frjálslynd. En meinar hann eitthvað annað með þessu tali en að veiða atkvæði?

Þegar ýmis skilyrði fyrir komu útlendinga hingað til lands voru þrengd fyrir tveimur árum var Magnús Þór Hafsteinsson annar helsti talsmaður flokksins í þessum málum með ákveðin sjónarmið.

Mér finnast reglur eins og um 24 ára aldurinn, 66 ára aldurinn og lífsýnatökur og annað lykta af nokkurs konar nesjamennsku sem kannski má útskýra með einhverri landlægri hræðslu sem liggur í þjóðarsálinni sem sennilega var plantað þar inn þegar Tyrkjaránin stóðu sem hæst árið 1627 eða þar um bil.

Magnús Þór sagði jafnframt að sér hefði orðið „svolítið bilt við“ að heyra að með þessum breytingum væri íslenska innflytjendalöggjöfin orðin strangari en sú danska. Gunnar Örn Örlygsson fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins hefur jafnframt upplýst í grein í Morgunblaðinu að Magnús Þór hafi verið fullur vandlætingar yfir því að norskir Hell’s Angels menn hafi verið handteknir við komuna til landsins fyrir nokkrum árum og þótt ótækt að verið væri að „sortera“ fólk við komuna til landsins með þessum hætti.

Hinn talsmaður Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum heitir Jón Magnússon. Með hverjum kosningum styttist í að flokkarnir sem Jón hefur verið í framboði fyrir verði fleiri en þeir útlendingar sem eru atvinnulausir hér á landi. Jón var gestur í Silfri Egils fyrir tæpum tveimur vikum. Í þættinum sagði hann frá skýrslu hollenska innanríkisráðuneytisins um að allt væri í rúst í innflytjendamálum í Hollandi. Og hver er ástæðan fyrir því að mati frambjóðanda Frjálslynda flokksins? Jú, í Hollandi er frjálslyndasta þjóðfélag í heimi.