M argir hafa velt því fyrir sér hvernig Samfylkingunni tókst að komast undir Vinstri græna í fylgi og á því er líklega engin einföld skýring. Innanflokksátök og mistækir formenn eiga vafalaust hlut að máli, en gegnumgangandi vandræðagangur frambjóðenda flokksins er líklega meginskýringin. Skiptir þá litlu hvort um er að ræða formanninn eða minni spámennina. Einn af minni spámönnunum, Kristján L. Möller þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, var í kosningaútsendingu Stöðvar 2 á miðvikudag og var spurður út í afstöðuna til álvers við Húsavík. Hann var spurður sérstaklega vegna þess að spyrlunum þótti afstaða flokksins til uppbyggingar stóriðju heldur óskýr og vildu gjarnan fá hreinar línur í málið.
Ekki varð þeim að ósk sinni í þættinum því að Kristján svaraði út og suður um stefnu flokksins, sem kölluð er Fagra Ísland. Hann útskýrði stefnuna að vísu ekki, en sagði að bíða þyrfti í einhver ár og kanna málið og að lokinni þeirri könnun þá væri ef til vill komið að stuðningi við byggingu álversins. Svarið var reyndar enn óskýrara en hér er lýst og þess vegna var Kristján þráspurður í þættinum. Loks tókst að draga út úr honum eitthvað sem hljómaði eins og hann styddi álversuppbyggingu við Húsavík, þó að enn sé óljóst hvort hann gerir það nú eða muni gera það í framtíðinni. Og þá er vitaskuld óljóst hvort hann mun örugglega styðja það í framtíðinni, eða hvort hann gerir það að uppfylltum einhverjum óskilgreindum skilyrðum. Allt er þetta hér um bil eins óljóst og hægt er að hugsa sér um jafn einfalt mál og þarna var til umræðu og tæplega þarf að koma á óvart þó að kjósendur eigi erfitt með að styðja flokk eða frambjóðendur sem geta varla sagt skoðun sína undanbragðalaust á nokkru máli.
Annars er ef til vill ósanngjarnt að nefna álver við Húsavík sem dæmi um sérstakan vandræðagang Samfylkingarinnar og skýringu á fylgistapi flokksins til Vinstri grænna. Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna átti nefnilega líka í töluverðum vandræðum í þættinum þegar hann var spurður um það mál og svaraði síður en svo jafn afdráttarlaust og hann gerir þegar hann reiknar ekki með að Húsvíkingar séu að hlusta. Steingrímur sló í og úr um nýtingu orkulinda og sagði að þar sem hann væri jarðfræðingur vissi hann að þetta væri allt saman mjög flókið mál.
Það er að vísu ekki jarðfræðin sem gerir þetta svona flókið í huga Steingríms, heldur miklu frekar landafræðin. Það getur nefnilega verið afar flókið fyrir þá sem hugsa mest um hvað fólk vill heyra, að ræða virkjana- og stóriðjumál þegar áheyrendur eru bæði af Suðvestur- og Norðausturhorni landsins.