Miðvikudagur 22. október 1997

295. tbl. 1. árg.
Fram hefur komið í fréttum að á fundi með kínverskum yfirvöldum og íslenskri sendinefnd hafi hinir kínversku ekki haft á orði að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslendingum. Þetta teljast því miður nokkur tíðindi eins og félagshyggjustjórnin á meginlandi Kína hefur hagað sér, bæði að undanförnu í samskiptum við okkur og gegn Kínverjum og öðrum síðustu áratugi. Þessi afstaða Pekingstjórnarinnar hefði þó alls ekki átt að þýða að refsiaðgerðir væru ekki ræddar. Full ástæða er fyrir íslensk stjórnvöld að mótmæla kröftuglega tilraun þessarar kommúnistastjórnar til að hafa áhrif á ferðir fólks um Ísland og samræður manna hér á landi. Engin ástæða er fyrir Íslendinga að útiloka refsiaðgerðir gegn slíkum stjórnvöldum og stærð meginlands Kína þarf ekki að breyta neinu þar um. Með því er ekki verið að mæla með viðskiptahindrunum, enda ekki hlutverk ríkisins að banna viðskipti milli manna, heldur mætti slíta stjórnmálasambandi við Pekingstjórnina. Á eynni Tævan eru lýðræðislega kjörin kínversk stjórnvöld sem hiklaust mundu taka upp stjórnmálasamband við okkur væri eftir því leitað. Víst er að úr þeirri átt þyrftum við ekki að þola hótanir og fýluköst af engu tilefni.