Fimmtudagur 23. október 1997

296. tbl. 1. árg.
Hugmyndaflugi vinstri manna eru lítil takmörk sett þegar kemur að því að auka útgjöld hins opinbera. Hjörleifur Guttormsson hefur áhyggjur af rollunni Dolly og vill að stofnað verði lífsiðfræðiráð til að fjalla um siðfræðileg álitaefni í tengslum við nýjustu tækni í erfðabreytingum. Hjörleifur hefur eins og fyrri daginn litlar áhyggjur af fjölgun ráða og nefnda á vegum ríkisins. Sjálfsagt telur hann að þegar allir Íslendingar verða komnir í fulla vinnu við hin og þessi nefndastörf á vegum ríkis og bæjar geti þeir fætt sig og klætt með því að kjamsa á skýrslum í kaffihléunum. Hjörleifi ætti einnig að vera ljóst, þar sem hann vinnur á sama stað og Svavar Gestsson og Hjálmar Árnason, að það er of seint að reyna að koma í veg fyrir klónun mannsins.

Baltasar  Komákur er meðal frambjóðenda í prófkjörinu um næstu helgi. Í blaði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið út í tilefni prófkjörsins er kynningarpistill frá Baltasar þar sem hann segir m.a.: „Reykjavík hefur alla burði til þess að vera háborg menningar og lista. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skapa eðlilegt umhverfi fyrir þá sem starfa í þeim geira í stað þess að sólunda almannafé í illa reknar stofnanir.“
Svo segir Baltasar: „Með því að slá fram fullyrðingum og slagorðum um að Reykjavík verði fíkniefnalaus árið 2002 er verið að vekja falskar vonir. Nær væri að yfirvöld tækju þátt í að stemma stigu við fíkniefnanyeslu á raunsæjan og blekkingarlausan hátt.“
Og að lokum er sjálfsagt að vitna til hugmynda Baltasars um það sem nefnt hefur verið miðbæjarvandinn: „Við leysum ekki miðbæjarvandann með því að svipta 10 þúsund ungmenni lögræði eða með því að loka öllum skemmtistöðum á sama tíma. Vandinn liggur í því að lokunartími skemmtistaða er alls staðar sá sami, sem leiðir til þess að gestir þeirra safnast saman á skömmum tíma á tiltölulega litlu svæði. Einfaldast er að bregðast við þessu vandamáli með því að gefa opnunartíma skemmtistaða frjálsan…“