Á dögunum hélt karlanefnd Jafnréttisráðs ráðstefnu,…
með karlfyrirlesurum, með karlþátttakendum, fyrir karla og um karla, undir yfirskriftinni Karlar krunka (miðað við efni og aðstæður þótti raunar ýmsum sem sleppa hefði mátt fyrsta staf síðara orðsins). Á þessari ráðstefnu töluðu ýmsir vandamálafræðingar um vandamál karla. Meðal þeirra var Steingrímur Hermannsson sem er eini maðurinn í Íslandssögunni sem ekki aðeins hefur skapað efnahagsvandamál heldur verið talinn sérstakt efnahagsvandamál út af fyrir sig. Samkvæmt Degi-Tímanum ræddi Steingrímur einkum um þynningu ósonlagsins sem að hans mati er eitt helsta vandamál karlkyns.
Staðreyndin er hins vegar sú að þynning ósonlagsins í heiðhvolfinu yfir jörðinni hefur að meðaltali verið um 2% á áratug undanfarna þrjá áratugi. En nú hafa menn komið sér saman um að hætta að nota CFC efni sem talin eru valda þessari smávægilegu þynningu. Aukin útfjólublá geislun vegna þynningar ósonlagsins mun því aldrei verða meiri en sem nemur því að flytja nokkra tugi kílómetra nær miðbaug, þ.e.a.s. ef kenningin um CFC efnin er rétt. Um 2040 fer ósonið svo aftur að vaxa. Ef Steingrímur, sem vissulega er rauðhærður og býr nú á Arnarnesi, hefur í alvöru áhyggjur af útfjólublárri geislun hefði hann átt að halda kyrru fyrir í sínu gamla kjördæmi, Vestfjörðum.
Þriðjudagur 6. maí 1997
126. tbl. 1. árg.