Eins og við skýrðum frá á dögunum ætla ASÍ og Neytendasamtökin…
að fylgjast grannt með verðlagshækkunum á næstunni og grípa til aðgerða gegn þeim fyrirtækjum sem hækka verð á vöru eða þjónustu. Ein hækkun virðist hafa farið gjörsamlega fram hjá þessum aðilum en það er hækkun á félagsgjöldum til verkalýðsfélaga sem eru yfirleitt hlutfall af launum og hækka því um leið og kaupið. Þannig hækkuðu félagsgjöld til verkalýðsfélaganna um 5% um síðustu mánaðamót. Hvernig getur verkalýðshreyfingin verið trúverðugur eftirlitsaðili með verðlagi ef hún hækkar sjálf verð á þjónustu sinni? Hér sannast enn að félagshyggjuliðið er meira fyrir að segja öðrum fyrir verkum en að hlíta þeim boðum (og bönnum) sjálft.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í gær er fjallað…
um tilvistarkreppu verkalýðshreyfingarinnar sem byggir starfsemi sína á einokun og þvingunaraðgerðum gegn launafólki. Þar kemur m.a. fram að hagnaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur var 108 milljónir króna á síðasta ári. Svona svipaður og hjá mörgum stærstu fyrirtækjum landsins. Óhætt er að mæla með lestri þessa bréfs enda er það eitt hið besta sem birst hefur undanfarin ár.
Verkalýðsfélögin og lífeyrissjóðirnir sem þau gína yfir eru raunar orðin stærstu fyrirtæki landsins. Það er ekki nóg með að starfshættir þeirra vegi að grundavallarmannréttindum eins og félagafrelsi heldur eru þeir á skjön við frjáls markaðsviðskipti.
Í Morgunblaðinu í gær er einnig fréttapistill…
um þá umræðu sem nú fer fram í Portúgal um fíkniefni og hvort ekki sé fullreynt að banna þessi efni og takast verði á við þau innan laganna en ekki utan þeirra. Forseti landsins og forseti þingsins benda á að afleiðingar bannsins séu m.a. þær að óhein efni séu á markaðnum og gróðinn af sölunni renni til glæpamanna sem nota hann til að fjármagna aðra glæpastarfsemi. Það er ekki nóg með að glæpalýður þrífist á fíkniefnabanninu og vilji viðhalda því heldur eru einnig komnir aðrir hagsmunir í spilið. Margir hafa atvinnu sína af því að framfylgja banninu, lögreglumenn, tollverðir og ýmsir fræðingar sem gjarna eru nefndir ,,fagfólk“. Ekki þarf að koma á óvart þótt þetta fólk telji hagsmunum sínum ógnað af tillögum um að leyfa fíkniefni. Forsetarnir í Portúgal sjá líka sérstaka ástæðu til að hvetja til fordómalausrar umræðu um þessi mál. Fátt hefur heyrst um þessa hlið málsins hér á landi fyrir utan nokkrar greinar í Gjallarhorni, blaði Heimdallar, á undanförnum árum.