Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðherra,  hefur lagt fram… 
frumvarp um ný lögræðislög. Krafa hefur staðið  á Þorsteini frá ,,fagfólki“ í  félagsmálaiðnaðinum og þingmönnum félagshyggjuflokkanna um  að sjálfræðisaldur verði hækkaður úr 16 árum í  18. Með sjálfræði fá ungmenni rétt til að  ákveða dvalarstað sinn, ráða sig í vinnu og ráðstafa  sjálfsaflafé sínu. Óljós rök hafa verið færð fyrir  hækkun sjálfræðisaldursins en helst verið bent á að taka  þurfi á málum nokkurra ógæfusamra ungmenna. Það hafa  forsjárhyggjusinnarnir viljað gera með því að svipta  alla á aldrinum 16 til 18 ára sjálfræði en það  munu vera um 11 þúsund manns. Þessi ,,lausn”  á vanda nokkurra unglinga kom upphaflega frá nefnd á vegum  borgarstjóra. Það er auðvitað sérstök ástæða til að  hrósa Þorsteini Pálssyni fyrir að láta ekki undan þessari  kröfu. Það er ekki á hverjum degi sem stjórnmálamenn láta  skynsemina ráða meiru um afstöðu sína en jarmið í  þrýstihópunum. 
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,  borgarstjóri,… 
flutti forvitnilega ræðu á Evrópuþingi Rauða  krossins og Rauða hálfmánans á mánudaginn var. Dagur-Tíminn  birti kafla úr ræðunni á miðvikudaginn. Í ræðunni sagði  hún m.a.: ,,Í hinu sjálfvirka velferðarsamfélagi  þar sem atvinnufólk á launum frá hinu opinbera sinnir þeim  sem eru ósjálfbjarga á einhvern hátt, virðist mörgum að  hluttekning sé á undanhaldi, að firring og kæruleysið um  örlög náungans séu vaxandi. Að maður  velferðarsamfélagsins láti sig æ minna máli skipta þó að  náungi hans eigi bágt af því honum finnst að einhver annar  hljóti að sinna honum, m.ö.o. að velferðin geri menn  síngjarna, firrta, að þeim komi færra fólk við, að þeim  þyki vænt um færri.“ 
Og Ingibjörg lét ekki þar við sitja í  gagnrýni… 
sinni á velferðarkerfið heldur  bætti við: ,,Velferðarsamfélagið veitir öryggi,  það er þessi augljósi meginkostur, en dylst hugsanlega einnig  í því hætta?…Lífsháskinn er orðinn fjarlægur og  óraunverulegur, og þá er hætt við gæði þess að vera  öruggur og búa við öryggi verði einskisverð, missi merkingu  sína og mikilvægi. Þetta getur haft tvenns konar afleiðingar.  Annars vegar minnkar samlíðunin með öðru fólki og  hæfileikinn til að setja sig í spor þeirra sem búa við  neyð heima fyrir eða í öðrum löndum. Hins vegar getur það  virkað sem spennandi leikur að hætta örygginu, að taka  áhættuna og spilla því til að sjá hvað gerist. Sumir  þykjast sjá merki þessa hættulega leiks í fari ungs fólks,  vilja túlka hinn þarflausa og hættulega leik að fíkniefnum  sem leit að þessari áhættu í vöntun á annarri betri, að  þessari glímu við lífið sem e.t.v. ein getur gert það  þess vert að lifa.” Það er óhætt að mæla  það lestri þessarar ræðu Ingibjargar enda er hún að mörgu  leyti greinargóð lýsing á þeim siðferðilega vanda sem  velferðarkerfi hins opinbera leiðir af sér og fáir íslenskir  stjórnmálamenn hafa haft kjark í sér til að nefna. Við  birtum fleiri kafla úr ræðunni við tækifæri. 
Brunabótarfélag Íslands er sérkennilegt  fyrirbæri…
og eignarhald með undarlegum hætti. Einar  Oddur Kristjánsson hefur lagt fram frumvarp á Alþingi  um að félaginu verði slitið og ,,eigendum“  skilað því fé sem þeir þar eiga. Sturla  Böðvarsson, þingmaður, kom hins vegar í  sjónvarpsfréttir og sagði að nú þegar Brunabótarfélagið  hefði selt hlut sinn í VÍS sköpuðust möguleikar fyrir  sveitarfélögin, sem ráða lögum og lofum í félaginu, til  að láta til sín taka á fjármálamarkaðinum og væri það  hið besta mál. Hvað er svona gott við að einhverjir  pólitíkusar og skriffinnar hjá sveitarfélögunum fari að  valsa um fjármálamarkaðinn með 3,6 milljarða króna? Er ekki  nóg komið af glötuðum útlánum opinberra aðila? Væri ekki  nær að sveitarfélögin, t.d. Stykkishólmur, notuðu það fé  sem þau fengju við slit félagsins til að greiða skuldir sem  þau hafa flest safnað af kappi undanfarin ár?