Vefþjóðviljinn 90. tbl. 20. árg.
Auðvitað dettur stjórnarandstöðunni ekki í hug að nú verði efnt til kosninga þótt hún flytji tillögu um slíkt. Á kannski að kjósa til þings í vikunni eftir forsetakosningar? Það eru ekki nema tvö hundruð frambjóðendur komnir í forsetaframboð og ósanngjarnt að ætlast til þess af þeim að þeir keppi um athyglina við tvöþúsund frambjóðendur til Alþingis. Og af því að flestir þjóðmálaspekingar landsins eru sannfærðir um að atkvæði í forsetakjöri dreifist næstum því jafnt þá verður einhver þessara tvö hundruð frambjóðenda kosinn með 0,5% fylgi.
Sennilega væri best að sleppa öllum þessum kosningum og halda bara í staðinn eina ógilda kosningu til stjórnlagaþings. Fela svo Ómari Ragnarssyni og Þorvaldi Gylfasyni að semja fjögurhundruð greina nýja stjórnarskrá sem tekur á öllu sem getur komið upp. Að því búnu myndi Þorkell Helgason búa til einhverja snjalla reiknireglu í þrjátíu liðum sem Pétri Gunnlaugssyni yrði falið að bæta inn í stjórnarskrána þar sem hann teldi mikilvægast að hafa hreinar línur.
Svo geta allir flutt til Tortóla.