Miðvikudagur 16. desember 2015

Vefþjóðviljinn 350. tbl. 19. árg.

Vegna löggjafar Steingríms J. Sigfússonar er matvælum brennt í rútubílum á Íslandi.
Vegna löggjafar Steingríms J. Sigfússonar er matvælum brennt í rútubílum á Íslandi.

Í gær birti ferðaþjónustufyrirtækið „Grey Line Iceland“ yfirlýsingu þess efnis að það nýti sér niðurgreiðslur frá ríkissjóði til að flytja inn lífeldsneyti, unnið úr matjurtum, til brennslu í rútubílum sínum. Peningarnir sem fyrirtæki fær frá ríkissjóði til að gera þetta hefðu ella runnið til vegagerðar.

Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að dótturfélag þess flytji inn repjuolíu sem blandað sé í hefðbundna Dieselolíu á rúturnar. Fyrirtækið vill ekki lagaboð um þetta efni verði afnumin en sem alræmt er skrifaði hagsmunaðili lagafrumvarpið fyrir Steingrím J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra árið 2012.

Lögin styðjast við tilskipun ESB um sama efni.

Í desember 2013 lagði hins vegar hópur umhverfisverndarsamtaka á borð við Greepeace, Oxfam og Friends of Earth fram harða gagnrýni á stefnu ESB varðandi lífeldsneyti því hún

leiddi til aukins en ekki minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda í samanburði við jarðefnaeldsneyti, hefði skógareyðingu í för með sér og skaðaði fjölbreytileika lífríkisins, hrekti smábændur af jörðum sínum og ógnaði fæðuöryggi fátækasta fólksins í veröldinni.

Umhverfisverndarsamtökin gagnrýndu einnig að lífeldsneytisframleiðslan nyti mikilla ríkisstyrkja eða um 6 milljarða evra á ári sem eru um 1.000 milljarðar íslenskra króna.

En sérstaklega gagnrýna samtökin hina óbeinu landnotkun sem lífeldsneytið hefur í för mér sér:

Land sem nýta mætti til matvælaframleiðslu er nú nýtt til ræktunar og framleiðslu á eldsneyti. Því þarf að færa matvælaræktunina annað, ekki síst í hitabeltið, þar sem áður ósnertum skógum og plöntu- og dýralífi sem þeim fylgir er rutt í burt fyrir landbúnað. Þessi skógareyðing dregur úr getu náttúrunnar til að binda koltvísýring (tré og plötur nýta CO2) og eykur stórlega útstreymi gróðurhúsalofttegunda, sem er þvert á það sem upphaflegri stefnu ESB um lífeldsneyti var ætlað.

Mörg umhverfisverndarsamtök voru áður fylgjandi lífeldsneytisskyldunni en hafa nú snúið við henni baki.

En hvers vegna vill íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki taka þátt í þessari skemmdarverkastefnu Evrópusambandsins og Steingríms J. Sigfússonar gagnvart umhverfinu og sveltandi fólki í veröldinni?

Og hvers vegna kýs núverandi ríkisstjórn að halda áfram að veita ríkisstyrki til þess arna?