Helgarsprokið 6. september 2015

Vefþjóðviljinn 249. tbl. 19. árg.

Gunnfáni upplýsingaþjófnaðar. Heimilt skal að hnupla persónuupplýsingum allra nema kapteins pírata.
Gunnfáni upplýsingaþjófnaðar. Heimilt skal að hnupla persónuupplýsingum allra nema kapteins pírata.

Í byrjun vikunnar gaf eiginkona fjármálaráðherra út yfirlýsingu um mál sem er ekkert annað en þeirra einkamál og nokkuð gamalt þar að auki. Þau hafi skráð sig fyrir forvitni á samfélagmiðilinn Ashley Madison fyrir sjö árum.

Sem kunnugt er brutust þjófar nýlega inn á umræddan samskiptavef og stálu þaðan hvers kyns upplýsingum um skráða notendur, allt frá greiðsluupplýsingum til persónulegra skilaboða. Þýfinu hafa þeir svo dreift um netið og ýmsir fjölmiðlar og bloggarar víða um lönd hafa kosið að gerast þjófsnautar með því að hagnýta sér upplýsingarnar.

Íslenskir fjölmiðlar og jafnvel bloggarar hafa hingað til látið einkamál af þessu tagi í friði, jafnvel þótt um stjórnmálamenn eða aðrar „opinberar persónur“ sé að ræða. Það hefur verið einn af kostum íslensks þjóðfélags. Flest fólk áttar sig á því að alþjóð varðar lítt um slík einkamál og að „fréttir“ af þeim skaða ekki aðeins viðkomandi einstakling heldur einnig fjölskyldu hans.

En nú starfar hér á landi stjórnmálaflokkurinn Píratar, sem áður nefndist Hreyfingin og Borgarahreyfingin, sem hefur lýst því yfir að þjófnaðir af þessu tagi eigi að vera refsilausir. Það eigi engar refsingar að liggja við því að stela upplýsingum og dreifa þeim um netið. Þjófnaðinn hefur flokkurinn kallað „upplýsingarfrelsi.“ Stríð er friður, frelsi er ánauð, fáfræði er styrkur. Að vísu gerðu forsvarsmenn Pírata undanþágu frá þessari stefnu þegar upplýsingar af Twitterreikningi Birgittu Jónsdóttur voru annars vegar. Þessi flokkur nýtur nú stuðnings þriðja hvers kjósanda samkvæmt könnunum.

En fleira kemur til en nýr stjórnmálaflokkur sem er andsnúinn því að þjófnaður sé refsiverður.

Nokkrum stundum eftir yfirlýsingu eiginkonu fjármálaráðherrans birti vinstribloggsíðan Stundin pistil um að hún hefði þýfið af Ashley Madison undir höndum og hefði ekki aðeins þrýst vikum saman á ráðherrann að tjá sig um þessi einkamál heldur einnig aðstoðarmenn hans í ráðuneytinu!

Aðstoðarmenn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa hunsað símtöl og tölvupóst frá Stundinni eftir að gögnum Ashley Madison-vefsins var lekið á netið fyrr í þessum mánuði.

Hvað átti aðstoðarmaður sem kom til starfa fyrir ráðherrann  fyrir ári eiginlega að segja við Stundina um sjö ára gömul einkamál ráðherrans?

Og Hjálmar Friðriksson og Jóhann Páll Jóhannsson á Stundinni voru ekkert að grínast með það að aðstoðarmenn ráðherrans ættu að stinga sér ofan í svaðið til þeirra. Nei þeir vitnuðu jafnvel í siðareglur máli sínu til stuðnings.

Í siðareglum starfsmanna stjórnarráðsins er einnig fjallað um samskipti við fjölmiðla, en fram kemur að starfsfólki stjórnarráðsins beri að veita upplýsingar greiðlega og með kerfisbundnum hætti.

Ætli siðareglur stjórnarráðsins hafi verið hugsaðar til þess að starfsmenn ráðuneyta þyrftu að svara hvers kyns óþverraspurningum um einkamál ráðherra?

Í fyrirsögn í pistli sínum skrifuðu Hjálmar og Jóhann Páll einnig að yfirlýsing eiginkonu ráðherrans væri ekki í samræmi við hin stolnu göng af Ashley Madison því aðgangurinn hefði verið nýttur árið 2011 og 2013. Þetta er alvarleg ásökun sem reyndist röng því Hjálmar og Jóhann Páll höfðu mistúlkað þýfið. Illur fengur illa forgengur. Þeir birtu því „uppfærslu“ á ávirðingunum.

Uppfært: Allt bendir til þess að uppfærslurnar á aðgangi Bjarna 2013 og 2011 hafi verið hluti af sjálfvirkri uppfærslu á vefnum. Síðasta virknin á aðgangi Bjarna átti sér stað um mánuði eftir að aðgangur hans var stofnaður, eða í október 2008.

En hver átti svo sem von á að menn sem hagnýta sér stolin göng um einkamál til að herja á fórnarlambið, fjölskyldu þess og vinnufélaga kynnu að biðjast velvirðingar?