Vefþjóðviljinn 264. tbl. 18. árg.
Hvaða kröfur ætli þeir geri til eigin málflutnings á skrifstofu Alþýðusambands Íslands?
Nú hafa þeir sent frá sér yfirlýsingu, sem fyrir algera tilviljun hefur í fyrirsögn sama uppnefni og Samfylkingin notaði um ríkisstjórnina í þingumræðum í síðustu viku. „Ríkisstjórn ríka fólksins – nokkrar staðreyndir“.
„Ríkisstjórn ríka fólksins“ sögðu þingmenn Samfylkingarinnar. „Ríkisstjórn ríka fólksins“ bergmálar skrifstofa Alþýðusambands Íslands og bætir því við að hún telji upp „nokkrar staðreyndir“.
Þegar ASÍ telur svo upp „staðreyndirnar“, sem eiga að sanna það að uppnefnið eigi við, koma svo fullyrðingar eins og þessi:
Auðlegðarskattur var afnuminn á síðasta þingi og er áætlað að ráðstöfunartekjur heimila aukist um 10,5 milljarða vegna þessa á næsta ári. Fyrir lá að greiðendur auðlegðaarskatts eru að langstærstum hluta tekjuhæstu heimili landsins. Árið 2012 voru t.a.m. tæp 70% greiðenda í hópi 10% tekjuhæstu heimilanna og um 80% í hópi 30% tekjuhæstu heimila landsins.
Hér kemur enn sami spuninn og ítrekað má heyra af vörum vinstriflokkanna. Vonda ríkisstjórnin „afnam auðlegðarskattinn“. Svona eru þessir menn með silfurskeiðarnar. Afnámu auðlegðarskattinn.
Hér er auðvitað hallað réttu máli, eins og þeir vita sem fylgjast eitthvað með. Vinstristjórnin setti á sérstakan eignaskatt, sem hún í áróðursskyni nefndi „auðlegðarskatt“. Samkvæmt lögum sem vinstristjórnin setti átti skatturinn að vera tímabundinn, verða í síðasta sinn reiknaður af árinu 2013 og greiddur á árinu 2014. Núverandi ríkisstjórn lét lögin svo standa óbreytt eftir að hún tók við völdum. Hún hefði getað afnumið „auðlegðarskattinn“ á síðasta ári og þá hefðu greiðendur hans ekki þurft að greiða hann nú. En það gerði hún ekki. Hún snerti ekki við lögunum. „Ríkisstjórn ríka fólksins“ hafði lög um „auðlegðarskatt“ nákvæmlega eins og Jóhanna, Steingrímur, Össur og þau öll skildu við þau.
En hefði áframhaldandi vinstristjórn ekki framlengt skattinn? Nei, ekki ef marka má yfirlýsingar ráðherra vinstristjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Þannig sagði Oddný Harðardóttir, sem þá var hvorki meira né minna en fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, í viðtali við Viðskiptablaðið sumarið 2012:
Ég myndi vilja skoða það að lækka efra [virðisaukaskatts]þrepið þegar fram í sækir. Mér líst betur á það að vera bara með eitt þrep, þannig að við getum lækkað það sem nú er í efra þrepi og endurskoðað það sem er á undanþágunni. Við þurfum að endurskoða þetta reglulega. Allir borga virðisaukaskatt en við stýrum síðan ráðstöfunartekjunum og jöfnuði í gegnum tekjuskattinn. Ég er ánægð með þessi þrjú tekjuskattsþrep. Það eru hins vegar ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“
Vinstristjórnin leggur á skatt, ákveður sjálf að hann skuli falla niður á tilteknu ári og fjármálaráðherra stjórnarinnar segist leggja áherslu á að skatturinn verði ekki endurnýjaður. Svo tekur við ný ríkisstjórn, hún getur afnumið skattinn en ákveður að gera það ekki heldur lætur lög vinstristjórnarinnar standa óbreytt. Og það telur skrifstofa ASÍ vera sönnun fyrir því að nýja ríkisstjórnin sé sérstök „ríkisstjórn ríka fólksins“.
Ályktaði ASÍ ekki örugglega að fyrri ríkisstjórn væri „ríkisstjórn ríka fólksins“, þegar fjármálaráðherra hennar sagðist leggja áherslu á að „auðlegðarskatturinn“ yrði ekki endurnýjaður?
Og hvað annað hefur núverandi „ríkisstjórn ríka fólksins“ gert, til að hygla ríka fólkinu? ASÍ nefnir breytingar á tekjuskattsþrepunum. Vinstristjórnin fjölgaði skattþrepum um tvö og hækkaði tekjuskatta fólks verulega. Hvað hefur „ríkisstjórn ríka fólksins“ gert til að breyta því? Er hún búin að einfalda kerfið aftur og lækka skattana? Hún gerði örlitar breytingar innan þrepanna. Þær breytingar geta skilað þeim, sem hæstar tekjur hafa, samtals 3.500 króna skattalækkun á mánuði. Þeir sem lægri tekjur hafa fá svo eitthvað minni lækkun. 3.500 krónur, beint í vasann á ríka liðinu. Svona er þetta lið.
Og „ríkisstjórn ríka fólksins“ er auðvitað búin að afnema eða að minnsta kosti lækka verulega tekjutengingu barnabóta og vaxtabóta, svo ríkir foreldrar fái barnabætur?
Nei, „ríkisstjórn ríka fólksins“ hefur ekki snert við tekjutengingunum.
„Ríkisstjórn ríka fólksins“ breytti engu í auðlegðarskattsreglunum frá valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur. „Ríkisstjórn ríka fólksins“ hefur ekki haggað við stórfelldum tekjuskattshækkunum síðasta kjörtímabils, ef undan eru skildar örlitlar tilfæringar á þrepamörkum, sem skilað geta í hæsta lagi 3.500 króna skattalækkun á mánuði. „Ríkisstjórn ríka fólksins“ hefur ekki haggað við neinu sem máli skiptir af því sem vinstristjórnin gerði. Meira að segja ofurskattarnir á sjávarútveginn, umfram allar aðrar atvinnugreinar, eru næstum allir lagðir á ennþá.
Hvernig stendur á því að ASÍ sendir frá sér slíkan áróður?