Helgarsprokið 21. desember 2014

Vefþjóðviljinn 355. tbl. 18. árg.

Margt er það sem Óskar kaupmaður lýsir í liðnum tíma sem ungt fólk mun varla trúa.
Margt er það sem Óskar kaupmaður lýsir í liðnum tíma sem ungt fólk mun varla trúa.

Það eru ekki alltaf áhugaverðustu bækurnar sem mest eru auglýstar. Margir munu missa af bókum sem hefðu veitt þeim bæði ánægju og fróðleik, jafnvel dýpri skilning á einhverju sem máli skiptir.

Ein þeirra bóka sem sennilega mun fara fram hjá mörgum sem hefðu notið hennar er látlaus endurminningabók Óskars Jóhannssonar, sem áratugum saman var kenndur við Sunnubúðina í Reykjavík. Flestir muna enn eftir hverfisverslununum, þar sem „kaupmaðurinn á horninu“ seldi nauðsynjavörur og skrifaði gjarnan hjá þeim sem voru í vandræðum, en færri vita hversu mikilvægar þessar verslanir voru fyrir Reykvíkinga eða hversu erfið baráttan var, sem kaupmennirnir þurftu að heyja til að halda rekstrinum gangandi. Þar voru opinber höft þeim ákaflega þung í skauti, og þá ekki aðeins innflutningshöft heldur ekki síður verðlagshöft, eins og Óskar rekur í bók sinni.

Óskar Jóhannsson, sem nú er kominn á níræðisaldur, hefur lengi staðið í ströngu. Fjögurra ára gamall missti hann föður sinn og þá varð móðir hans, 27 ára gömul, ekkja með sex börn. Fjölskyldan bjó í 36 fermetra húsnæði í Bolungarvík og barnungur var Óskar farinn að leggja sitt af mörkum. „Mamma brýndi fyrir okkur mikilvægi þess að vinna fyrir sér og sínum, af dugnaði og samviskusemi, og forðast eins og heitan eldinn að verða þurfalingar og öðrum til byrði. Þetta varð okkur systkinunum öllum leiðarljós í lífinu“ segir Óskar. Annars staðar segir Óskar:

Það voru skýrar línur í pólitíkinni á þessum árum. Margt ágætisfólk trúði í einlægni „góðu mönnunum“ sem lofuðu að útrýma fátækt og erfiðleikum með því að leiða íslensku þjóðina inn í sæluríki sovétlýðræðisins þar sem enginn væri fátækur, allir ættu allt en enginn ekkert. Það þurfti bara að kjósa þá á þing. Ekki minntust þeir á að það voru sjálfir foringjarnir sem höfðu mestan hag af því að verða æðstu stjórnendur ríkisins og þurfa ekki að óttast kosningar og þess háttar rugl eftir það. Ég hafði alist upp í þeirri trú að umfram allt ætti maður að leggja sig fram um að vinna sig sjálfur út úr fátæktinni – og allra besta hjálpin við aðra væri að hvetja þá til að gera það líka og gleðjast með þeim þegar árangurinn kæmi í ljós. Sá hugsunarháttur fannst mér strax mest áberandi hjá sjálfstæðismönnum og laðaðist því til fylgis við þá. Mér fannst þeir gera minnst af því að ala á öfund og tortryggni og kenna öðrum um bágt ástand sitt.

Margt er það sem Óskar lýsir í liðnum tíma sem ungt fólk mun varla trúa. Árið 1947 fór hann til útlanda, hafði verið valinn til að sækja alþjóðlegt ungmennamót: „Nú á tímum á fólk vafalaust erfitt með að gera sér í hugarlund hvað það var mikið mál að komast til útlanda vorið 1947. Enginn fékk að kaupa farseðil til útlanda nema koma með vottorð frá yfirvöldum um að hann skuldaði ekki skatta. Þá voru skattar greiddir árið eftir og margir útlendingar, sem höfðu unnið hér eftir stríðið, höfðu snúið aftur til síns heima án þess að greiða skatta. Í okkar tilfelli nægði að forstjóri KRON skrifaði upp á pappíra um að hann ábyrgðist skattgreiðslur okkar.“

Skömmtunarárin eru sérstakur hluti af sögu síðustu aldar og líklega mjög framandi í huga nútímamanna sem geta helst varla beðið andartak eftir að fá að kaupa nýjustu uppfærslu á dýrasta tískusímanum:

Ótrúlegt var hvað menn gátu bjargað sér sjálfir, þrátt fyrir öll höft og bönn og skort og skömmtun væri á öllum sviðum. Þá þekktist það ekki að nothæfri spýtu væri hent. Nú er öldin önnur. Ekkert mátti framkvæma nema með leyfi frá opinberri nefnd. Leyfið fékkst ekki nema framkvæmdin teldist „nauðsynleg“ að mati nefndarmanna.
Maður nokkur í Norðurmýri réðst í að girða lóðina sína. Hann hafði víst verið búinn að reka niður staurana áður en skömmtunin mikla skall á. Einhvern veginn hafði hann komist yfir gamlar spýtur, gamalt girðinganet og sement, svo að hann var langt kominn með að smyrja steypu utan um veginn, þegar yfirvöldin gripu í taumana og stöðvuðu þennan ósóma – að girða lóð án opinbers leyfis. Maðurinn var sektaður um háa fjárhæð. …

Ég minnist atviks sem gerðist í janúar 1948 og var glöggt dæmi um ástandið sem ríkti í þessum efnum. Við Jóhann Líndal, bróðir minn, höfðum pantað myndatöku hjá ljósmyndastofu Lofts Guðmundssonar sem þá var á Ránargötu. Við vorum á gangi til Lofts þegar ég tók eftir því að ég var ekki með hvítan vasaklút í jakkavasanum. Það lá við að vera guðlast á þeim tíma að láta taka af sér mynd í sparifötunum vasaklútslaus. Vefnaðarvöruverslun var í Austurstræti 1 og ég átti pening, en fyrir vasaklút þurfti að láta eina einingu af vefnaðarvörumiða sem ég átti ekki. Ég sagði afgreiðslustúlkunni frá óláni mínu og bað hana að selja mér vasaklút. Ég lofaði að skila honum aftur eftir myndatökuna. „Enginn miði, enginn vasaklútur,“ var svarið sem ég fékk. Ég bauð henni að láta passann minn sem tryggingu þangað til við kæmum úr myndatökunni. „Nei enginn miði, enginn vasaklútur.“
Við vorum að verða seinir og ég setti þá traust mitt á þá veiku von að á klósettinu hjá Lofti væri hvítur pappír sem ég gæti notað sem ígildi vasaklúts, fór beint inn á klósett en þar voru þá bara gömul dagblöð eins og allsstaðar.

Bros okkar bræðra á myndinni er ekki uppgerðar ljósmyndabros, heldur hlátur yfir þessari bölvuðu vitleysu.

Endurminningar Óskar Jóhannssonar, Kaupmaðurinn á horninu, eru fullar af sögum í þessa veru. Hann lýsir baráttunni við skömmtun og höft og við einstrengingslega embættismenn verðlagseftirlitsins, sem í dag myndu líklega starfa hjá Neytendastofu og sekta verslanir fyrir skort á verðmerkingu. Hann segir frá æsilegum átökum við verkfallsverði sem reyndu að loka öllum aðflutningsleiðum til Reykjavíkur. Í einu verkfallinu náði Óskar að lauma kjöti fram hjá víggirðingu verkfallsvarða með því að flytja það á trillu, sigla henni með leynd í fjöru og fara þaðan á ofsahraða undan verkfallsvörðum upp í Sunnubúð og selja húsmæðrum.
Ótalmargar frásagnir bregða upp mynd af Reykjavík liðins tíma:

Mikið meira var um gangandi fólk í bænum þá. Það var þó töluvert seinna sem Stebbi lögga, vinur minn, stór og mikill, stjórnaði umferðinni á Lækjartorgi og gaf fólki merki um hvenær það mætti og mætti ekki ganga yfir götuna. Kona nokkur lét það sig engu varða og gekk hiklaust yfir götuna. Stebbi hljóp þá til, sagði ekki orð en tók um báða upphandleggi konunnar, lyfti henni upp, hélt báðum höndum beinum fram fyrir sig, bar hana spriklandi aftur yfir götuna og setti hana niður á gangbrautina. Hóparnir, sem biðu beggja vegna götunnar, skellihlógu en konan strunsaði burt og hvarf fyrir horn.

Á stríðsárunum var samið um að menn sem unnu fyrir „utan“ Snorrabrautar, sem þá hét reyndar Hringbraut, mættu fara í mat kl. 11:40 því að þeir töldust vinna fyrir utan bæinn. Eitt sinn, áður en ég eignaðist bílnin og vann í KRON í Kleppsholtinu, þurfti ég að fara niður í bæ fyrir hádegi en leysa svo stúlku af í mat. Ég sá að ég yrði of seinn með strætisvagninum, svo að ég fór inn á bílastöð Steindórs í Hafnarstræti og fékk leigubíl inn í Kleppsholt. Bílstjórinn leit á klukkuna og bölvaði. „Nei kannski sleppur það,“ muldraði hann. Ég spurði hann hvað væri að. Bílstjórinn sagði þá að Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn ætti heima inn undir sundlaugunum gömlu, sem voru stutt þar frá sem Laugardalslaugin er nú, og færi alltaf í mat klukkan 12. Þá var Lögreglustöðin í Pósthússtræti. Leyfilegur hámarkshraði var 25 km en allir – nema Erlingur – keyrðu miklu hraðar. Enginn þyrði hins vegar að fara fram úr Erlingi Pálssyni yfirlögregluþjóni og allir þekktu bílinn hans. Það myndaðist því alltaf löng strolla af bölvandi bílstjórum á eftir Erlingi alla leiðina inn að gömlu sundlaugunum.