Föstudagur 25. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 115. tbl. 18. árg.

Fjölmiðlar sem starfa undir lögbundnum hlutleysisreglum verða að gæta mjög að sér í fréttaflutningi. Þeir verða meðal annars að gæta þess að láta ekki nota sig til að halda málum gangandi eða hafa óeðlileg áhrif á atburðarás. Þá verða þeir að gæta þess hlutleysis sem felur í sér að taka sambærileg mál sambærilegum tökum.

Í fjölmiðlapistli sínum í Viðskiptablaðinu í dag segir Andrés Magnússon blaðamaður meðal annars að síðustu daga hafi verið „sagðar af því örlagaþrungnar fréttir að Jórunn Frímannsdóttir Jensen, fyrrv. borgarfulltrúi, hefði beðist undan því að sitja í heiðurssæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum í borginni og vísað til Evrópumálanna. Svo mikið var úr þessu gert að Jórunn var meðal helstu viðmælenda ljósvakamiðla í vikunni. Með fullri virðingu fyrir Jórunni, stóð brotthvarf hennar ekki undir svo umfangsmiklum fréttaflutningi. Nei, hér blasir við að verið er að reyna að halda málinu lifandi, að gæta þess að hugmyndin um nýjan stjórnmálaflokk hverfi almenningi ekki úr huga. Það er vel skiljanlegt að fólkið, sem vill stofna nýjan flokk, haldi svo á málum. En það er ekki þar með sagt að fjölmiðlar eigi að láta það eftir því. Það er alltaf best að bíð með að segja frétt þar til hún gerist. Stundum kann að það að koma umfjöllunarefnunum vel að taka forskot á sæluna, en trúnaður fjölmiðla er ekki við þá, heldur almenning.“

Það rétt hjá Andrési að fréttaflutningur af þessu örlitla máli Jórunnar Frímannsdóttur Jensen var langt umfram fréttagildi. Fréttamenn verða að gæta sín á slíku, vilji þeir kalla sig hlutlausa.

Eitt allra skýrasta dæmið á síðustu árum um notkun á fréttatímum til að hafa áhrif á atburðarás, voru samfelldar auglýsingar fréttastofu Ríkisútvarpsins á vikulegum pólitískum baráttufundum sem efnt var til frá haustinu 2008 og þar til ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði verið mynduð. Dögum saman var sagt frá því í fréttum að boðað hefði verið til útifundar næsta laugardag, fréttir gerðir um hverja ræðu, eins og þær væru allar fréttnæmar viku eftir viku, og sumum fundum hreinlega útvarpað sérstaklega. Þar var farið langt umfram fréttagildi, sérstaklega þegar sagt var frá því í fréttum, dögum saman, að halda ætti útifund eftir nokkra daga. Slíkt getur auðvitað skaðað baráttu fundarboðenda, því flestir sjá að fundarsóknin verður auðvitað skoðuð í ljósi þeirrar kynningar sem fundurinn hafði fengið fyrirfram.