Vefþjóðviljinn 111. tbl. 18. árg.
Eins og stundum gerist þegar styttist í kosningar, kom nýlega út skýrsla um fátækt. Samkvæmt henni búa þúsundir barna á Íslandi við fátækt eða eiga það á hættu. Stjórnmálamenn koma í viðtöl við Ríkisútvarpið og vilja taka hart á þessu. Það verður að útrýma fátæktinni.
En hvernig á að meta hvað telst til fátæktar? Eftir því sem fregnir herma þá er í skýrslunni miðað við heimilistekjur sem eru undir 60% meðaltekna í landinu. Sé miðað við það mun fátækt seint verða útrýmt.
Hvaða lífskjör ætli dæmigerður Qatar-maður, sem býr við fátæktarmörk, þurfi að gera sér að góðu. Ef fátækt er skilgreind eftir hlutfalli af meðaltekjum einstaklinga af hverju þjóðerni, þá eru líklega lítil takmörk fyrir því hvert teygja má fátæktarmörkin og hversu margar skýrslur má semja.
Auðvitað dettur engum sanngjörnum manni í hug að segja að enginn sé efnahagslega fátækur, á Íslandi eða í öðru landi. En menn ættu að taka öllum svona skýrslum af mikilli varkárni.
Í landi einu búa tíu menn. Svo óvenjulega vildi til, þegar álagningarskráin þar var skoðuð á síðasta ári, að tekjurnar skiptust þannig að sá tekjulægsti hafði 100.000 krónur á mánuði, sá næsti var með 200.000 krónur og þannig koll af kolli þar til kom að þeim tekjuhæsta sem var með milljón. Meðaltekjurnar voru 550.000 krónur og undir 60% viðmiðinu, 330.000 krónum, voru þrír menn.
Þetta er fiskimannasamfélag og nýjasta vertíð gekk afskaplega vel. Allir íbúarnir vinna við veiðar og vinnslu og þegar allt gekk svona vel hækkuðu laun hvers einasta manns um tíu prósent. Það var nú búbót sem marga munaði um.
En því miður, eftir launahækkunina voru meðallaun 650.000 krónur og undir 60% viðmiðinu, sem komið var í 390.000 krónur, voru sömu þrír. Samkvæmt næstu skýrslu voru þeir jafn fátækir. Sú aðferð að auka framleiðslu og hagnað til að vinna á fátæktinni, reyndist gagnlaus. Markaðslausnir virka ekki, segir prófessor í siðrænum félagsvísindum í viðtali.
Annað var uppi á teningnum í jafnfjölmennu nágrannaríki þar sem menn höfðu fengið sömu laun og fiskimennirnir. Eini munurinn var að fimm þeir tekjuhæstu störfuðu allir í banka sem fór að ganga illa. Laun þeirra allra voru lækkuð um 20%. Laun hinna voru óbreytt. Eftir þetta voru meðaltekjur í landinu 470.000 krónur og 60% af þeim, fátæktarmörkin, 282.000 krónur. Skyndilega voru aðeins tveir en ekki þrír undir fátæktarmörkum. Fátækt hefur minnkað um þriðjung, segir í nýrri skýrslu. Velferðarráðherra segir að félagslegar áherslur skili árangri.