Vefþjóðviljinn 110. tbl. 18. árg.
Ein afleiðing þess að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa undanfarin ár forðast hugmyndafræðilega baráttu við vinstrimenn, er uppgangur almennrar vinstrimennsku. Sífellt fleira er rætt á forsendum vinstrimanna, en kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyna að fremur að elta umræðuna en hafa áhrif á hana.
Á dögunum sendu baráttumenn frá sér ályktun þar sem þeir kröfðust þess að „kynjafræði“ yrði gerð að skyldunámsgrein og vísuðu auðvitað á nýja aðalnámskrá sér til stuðnings. Það er auðvitað búið setja inn í aðalnámskrá, frá leikskóla, að mikil jafnréttisfræðsla skuli dynja á börnum og ungmennum, svo tryggt verði að enginn komist í gegnum skólakerfið með rangar hugmyndir, að ekki sé talað um rangan „hugsunarhátt“.
Auðvitað verða leikskólabörn að fá innrætingu í kynjafræði. Ekki dettur ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins að amast við því.
Auðvitað gera þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekkert í því að inn í lög séu sett fyrirmæli um samfellda „fræðslu“ í „jafnréttismálum“, svona eins og Ísland sé Sádí-Arabía og þar sé skelfilegt ástand í jafnréttismálum.
Á Íslandi er eitthvert almesta jafnrétti sem þekkist. Konur og karlar standa formlega jöfn í lögum, þótt á því sé viss misbrestur sem kemur fram í því að þeir sem sækja um störf eru látnir gjalda þess ef margir af sama kyni hafa áður gegnt því. En almennt talað er mikið jafnrétti milli kynja á Íslandi. Sama má segja um marga aðra flokkun fólks, því auðvitað má flokka menn eftir öðru en kyni þess.
Engu að síður komast menn upp með að láta eins og Ísland sé ein Sádí-Arabía þar sem hugmyndin um jafnan rétt karla og kvenna sé svo framandi að um hana verði að fara fram samfelld innræting allt frá bernsku og eiginlega til æviloka, því þegar skólakerfið loksins sleppir af mönnum hendinni tekur Ríkisútvarpið við.
Hvernig stendur á því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins þora ekki að lyfta fingri gegn þessum rétttrúnaði? Hvernig stendur á því að þeir láta lög, reglugerðir og námskrár vinstristjórnarinnar halda gildi sínu? Það tekur ekki langan tíma að afnema gildandi aðalnámskrá og ákveða til bráðabirgða að fyrri námskrá taki aftur við. Hvers vegna vinnur skólakerfið eins og Katrín Jakobsdóttir sé enn menntamálaráðherra?
Ein meginfirra margra þeirra sem láta eins og þeir styðji jafnrétti, er að þeir halda í landinu séu ekki þúsundir ólíkra einstaklinga heldur einungis tveir hópar, Allir karlar og Allar konur. Og þess vegna sé hægt að finna út að á annan hvorn hópinn halli, og réttmætt sé að grípa til opinberra aðgerðra til að „leiðrétta hallann“. Þegar Jón og Gunna sækja um starf megi telja karla og konur sem gegna því, og láta síðan annað hvort Jón eða Gunnu gjalda niðurstöðunnar. Eitt mikilvægasta verkið sem frjálslyndir menn – og þá er átt við raunverulega frjálslynda menn en ekki þá sem vilja bara ganga í Evrópusambandið sem nægir auðvitað til „frjálslyndis“ að mati fréttamanna – hafa í stjórnmálaumræðu næstu ára, er að berjast gegn ranghugmyndinni um hópana tvo.
Í dag er páskadagur, helgasta hátíð kristinna manna um allan heim. Þeir sem trúa á hópana tvo, Alla karla og Allar konur, ættu að gleðjast fyrir hönd kvenna þegar þeir lesa páskafrásagnir guðspjallanna. Myndin af konum og körlum er þar mjög ólík. Lærisveinarnir flúnir og Símon Pétur búinn að afneita þrisvar, að ekki sé minnst á þann sem sveik. En hverjar stóðu við krossinn? Hverjar voru það sem gerðu sér ferð að gröfinni strax í birtingu eftir hvíldardaginn? Hverjar voru það sem fyrstar allra manna fengu að heyra að Kristur væri upprisinn?
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra páska.