Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur lýst því yfir á hálfsmánaðarlegum fréttamannafundi sínum í forsætisráðuneytinu að Framsóknarflokkurinn hyggist, fyrstur íslenskra flokka, opna heimili þingmanna sinna fyrir almenningi. Verður það gert með þeim hætti, að upptökuvélum verður komið fyrir í öllum helstu vistarverum heimilanna og almenningur getur síðan fylgst með heimilislífinu í beinni útsendingu, annað hvort á lýðnetinu eða á nýrri stafrænni ríkissjónvarpsstöð sem nýtt frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið gerir mögulegt að starfrækja. Verður útsendingin fjármögnuð með nýjum nefskatti sem er ekki nema eðlilegt þegar menn verða með nefið í hvers manns koppi.
Halldór segir, að framsóknarmenn vilji stíga þetta skref til að undirstrika að flokkurinn sé í fararbroddi nýrra hugmynda um heiðarleika og gagnsæi í stjórnarháttum, enda sé ljóst að öll leynd varðandi störf og líf stjórnmálamanna ýti undir tortryggni og gróusögur. Almenningur eigi rétt á að vita hvað kjörnir fulltrúar hafist að, bæði utan þings og innan, og ljóst sé að sá leyndarhjúpur sem stjórnmálamenn hafi sveipað einkalíf sitt hafi dregið úr trausti þeirra og virðingu. Framsóknarmenn vilji, sem merkisberar nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum, ríða á vaðið og sýna gott fordæmi, en þeir hafi jafnframt lagt til við forsætisnefnd Alþingis að hún beiti sér fyrir því að settar verði samræmdar reglur um upptökur og útsendingar af þessu tagi, sem framvegis muni ná til þingmanna allra flokka. Til að undirstrika þessa áherslu flokksins altæka upplýsingasamfélagið verður nafni hans breytt í Rannsóknarflokkurinn.
Eins og fram kemur á heimasíðu Björns Inga Hrafnssonar stystaleidinatoppinn.is, hefur tillögu Halldórs hvarvetna verið vel tekið og vísar hann meðal annars til þess að á vefsíðunni kaupfelagar.is hafi Halldór verið valinn „maður vikunnar“ 11. vikuna í röð, eða frá því Björn Ingi sjálfur varð síðast þessa heiðurs aðnjótandi.
Þingmennirnir Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa lýst yfir mikilli ánægju með þetta framtak Framsóknarflokksins, en benda jafnframt á að þau hafi árum saman barist fyrir því að þingmenn afléttu leyndinni af einkalífi sínu, enda ljóst að margt sem þingmenn aðhefðust í einkalífi sínu hefði grundvallaráhrif á störf þeirra í þágu almennings og kjósendur gætu ekki treyst stjórnmálamönnum, sem að jafnaði störfuðu aðeins fyrir opnum tjöldum milli 8 á morgnana og 12 á miðnætti og sjaldan um helgar eða í þinghléum. „Það er ljóst, þingmenn hafa ótal tækifæri til að hitta með leynd alls konar fólk sem gæti reynt að hafa vafasöm áhrif á þá. Þeir geta líka aðhafst margt í einkalífi sínu sem rýrir traust þeirra að öðru leyti og það er ógnun við lýðræðið í landinu að halda slíkum hlutum leyndum,“ segja þau í sameiginlegri yfirlýsingu. „Við höfum þegar náð þeim áfanga að opna skattframtöl og bankareikninga þingmanna og ættingja þeirra fyrir almenningi og þetta nýja skref er vissulega einnig áfangi á leiðinni til opins og lýðræðislegs samfélags,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Formaður Blaðamannafélagsins fagnar líka ummælum forsætisráðherra. „Það er skylda okkar fréttamanna, sem réttmætra handhafa fjórða valdsins í samfélaginu, að veita stjórnmálamönnum aðhald. Hvernig getum við rækt þessa skyldu okkur ef þeir geta farið heim að loknum vinnudegi og lokað að sér á heimilum sínum? Það er ljóst að þar geta þeir átt samskipti við alls konar fólk með vafasama hagsmuni og einkennilegar skoðanir, fyrir nú utan það að við höfum rökstuddar grunsemdir um að sumir þeirra hegði sér einkennilega utan þings, reyki jafnvel og drekki brennivín, hafi skrýtin áhugamál og undarlega siði, og allt þetta þarf að koma upp á yfirborðið ef við eigum að geta treyst þeim til að fara með þá þætti ríkisvaldsins sem ekki falla beinlínis undir fjórða valdið,“ segir hann. „Margt býr í myrkrinu og ef stjórnmálamenn telja sig þurfa að forðast kastljós fjölmiðla á kvöldin og um helgar, þá bendir það til þess, sem við höfum alltaf vitað, að þeir hafi margt að fela.“ Formaðurinn bætir því við að mikilvægt sé að hafa klukku stillta á meðaltíma í Greenwich tengda við upptökubúnaðinn, til að fyrirbyggja misskilning um það hvenær einstök ummæli hafi fallið eða um röð atburða í upptökunum að öðru leyti.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur sagt á blaðamannafundi á Bessastöðum, að öllum sé ljós sú mikla gjá sem myndast hafi á milli þings og þjóðar vegna þeirrar leyndar sem hvíli yfir orðum þingmanna og athöfnum utan starfstíma Alþingis. „Vegna þeirrar óvissu, sem nú ríkir í íslenskum stjórnmálum, hef ég því hvorki séð mér fært að mæta í brúðkaup Karls og Camillu né jarðarför páfa, enda hefur ekki legið fyrir hvort ég þyrfti að beita löggjafarvaldi því sem þjóðin hefur falið mér, og byggir á 2. gr. stjórnarskrárinnar, eins og Sigurður Líndal, Ragnar Aðalsteinsson og Harpa Njáls túlka hana, til að tryggja framgang nútímalegra, faglegra og fræðilegra sjónarmiða um lýðræðislegt og opið samfélag á morgni 21. aldarinnar.“
Samgönguráðherra hefur lýst því yfir, að verið sé að þróa tækjabúnað, sem geri mögulegt að græða kubb með staðsetningarbúnaði og upptökutæki í þingmenn þannig að unnt verði að fylgjast með ferðum þeirra og samræðum allan sólarhringinn. Samt sem áður sé ekki tímabært að setja löggjöf um málið á þessu stigi enda verið að bíða eftir nýrri tilskipun Evrópusambandsins um þetta efni. Hins vegar sé mikilvægt að Íslendingar búi sig tæknilega undir þessa breytingu, enda sé almennur pólitískur vilji til þess að Ísland sé í fararbroddi á þessu sviði sem öðrum. Tilvalið verði að hefja innleiðingu þessarar nýju tækni með því að nota hana á stjórnmálamenn og síbrotamenn, en þegar fram líði stundir sé ekkert því til fyrirstöðu að tengja búnaðinn við landsmenn alla.