Fordómar eru sífellt að verða meira áberandi. Á hverjum degi birtast þeir á nýjum stöðum. Fordómar gegn fordómum, það er að segja. Það eru allir á móti fordómum. En sjaldnast segir nokkur hvers vegna. Það eru fordómar.
Eða hvað eru fordómar? Fordómar eru í fyrsta lagi skoðun sem einhver hefur. En hvað er meira um þá að segja? Eru þeir órökstudd skoðun, skoðun sem byggð er á vanþekkingu, skoðun sem flestum öðrum þykir röng, eða einfaldlega óvinsæl skoðun?
Búum til lítið dæmi. Segjum að tveir menn, sem enga skoðun og nær enga þekkingu hafi fyrirfram, séu teknir og spurðir hvort almennur munur sé á manngildi hvítra manna og svartra. Annar maðurinn svari því strax að hann telji hvíta menn og svarta jafngilda og það sé af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafi báðir að jafnaði tíu tær. Sín skoðun sé nefnilega sú að manngildið ráðist af fjölda táa. Hinn maðurinn hins vegar, hann leggist í rannsóknir. Safni sér alls kyns gögnum um sögu hvítra manna og svartra, skoði tölur, línurit, súlurit og hver veit hvað, og komist svo einhvern veginn að þeirri niðurstöðu að hvítir menn séu merkilegri en svartir og að eðlilegast sé að svartir þjóni hinum hvítu. Hvor þessara manna er fordómafullur? Sá sem kemst að ágætri niðurstöðu, að mati Vefþjóðviljans, en með táa-talningu? Sá sem kemst að verri niðurstöðu, en eftir langa umhugsun og athuganir, byggðar á mikilli þekkingu? Ef fordómar eru einfaldlega skoðun, byggð á vanþekkingu, þá er sá fyrri væntanlega fordómafullur í þessu atriði. En hinn sennilega ekki, því niðurstöðu sína byggir hann á þekkingu, þó þekkingin hafi þá að vísu ekki leitt hann til réttrar niðurstöðu að mati Vefþjóðviljans.
Á dögunum kynnti félagsmálaráðherra að hann hygðist setja á fót nefnd sem hann kallaði innflytjendaráð, og væri tilgangur þess að berjast gegn „fordómum“ sem hefðu birst í niðurstöðum könnunar þar sem fleira ungt fólk en áður hefði lýst sig andvígt auknum straumi útlendinga til Íslands. Af hverju er sú skoðun unga fólksins endilega fordómar? Af hverju er hún ekki bara skoðun? Þetta er skoðun sem margir eru andvígir, en af hverju þarf að uppnefna þessa skoðun „fordóma“? Er það af því að þar með verður auðveldara að veita opinberu fé til að berjast gegn henni? Það er auðvitað auðveldara að setja fót stofnanir til að berjast gegn tilteknum „fordómum“ en gegn tilteknum „skoðunum“.
Það að vera á móti til dæmis auknum straumi útlendinga til Íslands, það er einfaldlega ákveðin skoðun á tilteknu deilumáli. Fólk hefur rétt til að vera þessarar skoðunar og láta hana í ljós. Og þeir sem eru annarrar skoðunar, þeir hafa þá sinn rétt til að andmæla þeim.
Þetta sama á við á fjölmörgum sviðum. Það er allt of algengt að óvinsælar skoðanir séu afgreiddar sem „fordómar““ eða „fáfræði“, í staðinn fyrir að gagnstæð skoðun sé rökstudd. Sem ætti nú ekki að vera erfitt, fyrst hin er byggð á fáfræði einni. Svo má heldur ekki gleyma því, að þó menn eigi rétt á því að lifa sínu lifi í friði og rétt á að hafa sínar skoðanir, þá eiga þeir ekki þar með rétt á því að aðrir láti ekki í ljós ef þeim fellur ekki gildismat þeirra. Maður hefur fullan rétt á því að lifa eingöngu á grænmeti, svo dæmi sé tekið, en hann á engan rétt á því að annar maður láti ekki í ljós þá skoðun að það sé ekki rétt að lifa bara á grænmeti. Hvor um sig má hafa sína skoðun á málinu. Sennilega veit hvorugur hvaða fæðusamsetning er best fyrir hvern og einn, en þessir menn eru ekki „fordómafullir“. Þetta eru einfaldlega skoðanir; smekkur kannski réttara orð.