Sumir hugsa mjög um það hvað þeir láta ofan í sig og ekki síður um hvað þeir vilja alls ekki borða eða drekka. Þó slíkt virðist stundum jaðra við ofstæki fremur en það sem Læknafélaginu þætti eðlileg rósemi hugans, þá hljóta menn að vera á allan hátt frjálsir að slíkum meiningum fyrir sjálfa sig. Svo eru þeir til sem ekki láta nægja að hafa skoðanir á eigin neyslu heldur þurfa endilega að skipta sér af áti og drykkju annarra. Jafnvel eru til sérstök félög slíkra manna. Á dögunum stóðu templarar fyrir bindindishelgi fjölskyldunnar þar sem mælst var til þess að eina tiltekna helgi, 21. og 22. nóvember 1998, yrðu fjölskyldur í landinu allsgáðar (þrátt fyrir yfirskriftina mun hafa verið átt við allar fjölskyldur, ekki bara eina).
Af þessu tilefni ræddi Morgunblaðið við fjóra glaðbeitta einstaklinga sem fyrir viðtalið munu aldrei hafa bragðað vín. Meðal þessa hressa fólks var Björn Jónsson stórtemplar Stórstúku Íslands. Björn var spurður hvort hann teldi algjört bann á vínsölu nauðsynlegt og sást á svarinu að Björn er enginn ofstopamaður: Nei, ég tel það ekki. En ég tel nauðsynlegt að aðgengi að því sé heft og bæði að vínútsölustöðum og krám sé stórlega fækkað og verð hækki.
Líklega er þessi skoðun Björns útbreidd meðal þeirra sem berjast fyrir almennu bindindi. Þó fæstir þeirra tali nú fyrir því að áfengisdrykkja verði lýst refsiverð, gera margir sér í hugarlund að ala megi menn upp með því að vínið verði selt á ógurlegu verði og að menn geti ekki nálgast það nema eftir krókaleiðum, með mikilli fyrirhöfn og helst leiðindum.
Sama dag og Morgunblaðið birti viðtalið kom í blaðinu grein eftir Hjört Gíslason og Helgu Þórarinsdóttur. Grein Hjartar og Helgu fjallar um Róm og nágrenni borgarinnar. Í greininni er víða komið við og meðal annars minnst á vínmál. Segir þar: Áfengi er ódýrt á Ítalíu og það fæst alls staðar. Það er auglýst alls staðar og allir mega kaupa áfengi í matvörubúðinni. Engin aldursmörk eru á slíkum kaupum og ekkert þykir athugavert þótt börn séu send út í búð eftir víni með matnum. Í sumar gat að líta auglýsingu frá þekktu vínfyrirtæki a strætó. Þar sagði: Pabbinn drekkur vínið frá okkur. Mamman drekkur það og börnin drekka það. Ítalir drekka mun meira en við Íslendingar mælt í lítrum af hreinum vínanda. Þrátt fyrir það sést varla vín á nokkrum manni. …. Það er mjög athyglisvert að bera saman vínmenningu Ítala og Íslendinga í ljósi þess hve áfengi er ódýrt á Ítalíu, hve mikið það er auglýst og hve auðvelt er að nálgast það. Maður sér varla drukkinn Ítala og er það anzi frábrugðið því sem líta getur í miðborg Reykjavíkur að áliðnu kvöldi um helgar.